141. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2012.

staða atvinnumála.

[15:59]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem fram kom í máli hæstv. forsætisráðherra, í kjölfar hrunsins haustið 2008 töpuðust geysimörg störf. Forsætisráðherra nefndi 15 þúsund. Ég hef heyrt tölur frá aðilum á vinnumarkaði um að það hafi verið allt upp í 22 þúsund. Það skiptir kannski ekki öllu máli, en síðan eru liðin fjögur ár.

Núverandi ríkisstjórn tók við völdum 1. febrúar 2009. Hefur henni gengið vel að endurheimta þau störf sem töpuðust í hruninu? Svarið er nei.

Lítum á staðreyndir. Vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar sem meðal annars kom út í morgun gefur til kynna að starfandi fólk á íslenskum vinnumarkaði í ágúst 2012 sé álíka margt og í ágúst 2011. Það er álíka margt fólk og var starfandi á íslenskum vinnumarkaði í ágúst 2010 þannig að á mælikvarða þess hversu margt fólk er á vinnumarkaði og hversu margt fólk hefur störf hefur störfum ekkert fjölgað. Það er rétt að atvinnulausum á skrá hefur fækkað en þeim sem eru ekki taldir á vinnumarkaði, þeim sem hafa dottið út af vinnumarkaðnum, og hv. þm. Margrét Tryggvadóttir minntist á áðan, hefur fjölgað sem og þeim sem hafa flutt til útlanda. Þeim sem eru ekki lengur með í atvinnuleysismælingunni fjölgar en störfunum fjölgar ekki og það er afraksturinn af stjórnarstefnu hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur.