141. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2012.

staða atvinnumála.

[16:11]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Mér finnst stjórnarandstaðan, a.m.k. sjálfstæðismenn og framsóknarmenn, vera við sama heygarðshornið og áður. Það virðist eins og (Gripið fram í.) hlutverk hennar sé að tala niður efnahags- og atvinnulífið í landinu. Ég spyr: Segir það þessu fólki ekki neitt hvað atvinnuleysi hefur lækkað í landinu og (Gripið fram í.) hvað hagvöxtur hefur aukist? Hann er upp undir það að vera nánast helmingi meiri en meðaltalið í Evrópu.

Ríkisstjórnin hefur gert mjög marga hluti til að örva hagvöxt og atvinnulífið. Ég nefni fjárfestingaráætlunina. Hún væri ekki til ef við hefðum ekki náð veiðigjaldinu fram en um það þurftum við að berjast við Sjálfstæðisflokkinn, hann barðist gegn því á síðasta þingi. Þá væri nýr Herjólfur kannski ekki í augsýn eða Landeyjahöfn (Gripið fram í.) eða samgöngubætur. Við sjáum kannski Norðfjarðargöng og Dýrafjarðargöng verða að veruleika miklu fyrr en áformað var. Við sjáum verulegar breytingar á umgjörð atvinnulífsins með skattafslætti vegna viðhalds, vegna nýsköpunarfyrirtækja og vegna margs konar fjárfestingarsamninga sem hafa verið gerðir. Við erum að sjá verulega aukningu í vísinda- og tæknisjóð, nærri tvöföldun. Það er sú leið sem til dæmis Finnar og Svíar fóru þegar þeir fóru í gegnum sína kreppu. Allt eru þetta leiðir til þess að örva og efla atvinnulífið og það erum við að gera.

Varðandi þær tölur sem hér voru nefndar frá Hagstofunni, þá verða menn líka að horfa á tölur frá Hagstofunni sem segja að störfum hefur fjölgað á vinnumarkaði á milli annars ársfjórðungs 2011 og 2012 um 2.100 (Gripið fram í.) og á sama tíma fækkaði atvinnulausum um 2.500 og langtímaatvinnulausum fækkaði um 1.100. Samkvæmt Vinnumálastofnun (Forseti hringir.) var 4,8% atvinnuleysi í ágúst 2012, samanborið við 6,7% í ágúst 2011. Þetta hlýtur að segja stjórnarandstöðunni eitthvað. (Gripið fram í: Ekki neitt.)