141. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2012.

mat á umhverfisáhrifum.

87. mál
[16:23]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið sem er raunverulega ekki fullnægjandi því að hér er verið að vísa í dóm sem hefur fallið en í greinargerðinni eru taldir upp einir sjö, átta dómar sem fallið hafa hjá Evrópudómstólnum. Það er notað sem rök í þessu máli og að ESA hafi komist að niðurstöðu um að við þyrftum að breyta okkar löggjöf vegna þeirra. Það sýnir enn og aftur að dómar Evrópudómstólsins hafa áhrif hér á landi. Í hvaða dóm er ráðherrann nákvæmlega að vísa sem varð svo afdrifaríkur að farin var þessi leið að því er ráðherrann kallar einfaldari og styttri málsmeðferð eins og hún telur að sé verið að fara í?

Það var orðið tímabært að reyna að stytta málsmeðferðina í umhverfismálum á Íslandi því að oft og tíðum hefur hún verið afar löng og farið langt fram úr þeim mörkum sem stjórnsýslulögin segja til um. Það er ágætismarkmiðsgrein ef það á að takast með frumvarpi þessu og óska ég öllum aðilum til hamingju með það því að það var löngu orðið tímabært.

Þetta þarf samt að skýra betur. Um hvaða dóm er verið að tala og hvað nákvæmlega í dómi Evrópudómstólsins varð til þess að þessar breytingar voru gerðar? Úr því að ráðherrann telur frumvarpið ívilnandi fyrir íslenska stjórnsýslu, stytta tímamörk og gera atvinnulífinu auðveldara fyrir spyr ég: Hvað í dómnum útskýrir það? Samkvæmt þessu frumvarpi virkar það ekki á mig sem verið sé að einfalda stjórnsýsluna heldur langtum frekar, eins og venja er, að flækja hana enn frekar.