141. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2012.

mat á umhverfisáhrifum.

87. mál
[16:25]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka enn ágæt skoðanaskipti og sérstaklega hvatningu og upplífgandi orð þingmannsins um samskipti umhverfismála og atvinnulífs.

Það er rétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns að í greinargerðinni eru nefndir sjö til átta dómar sem vísað er til þar, en eins og kom fram í framsögu minni vísa þær athugasemdir sem ESA sendi til umhverfisráðuneytisins með bréfi sem dagsett var 1. febrúar 2010 sérstaklega til dómsniðurstöðu Evrópudómstólsins í einu máli, þ.e. í máli sem merkt er C-255/08, og á grundvelli þess dóms ákveður ESA að hefja skoðun á innleiðingu þessarar tilskipunar hjá öllum EES- og EFTA-ríkjunum og gerir athugasemdir á grundvelli þeirrar skoðunar við innleiðingu tilskipunarinnar í íslenskan rétt. Það er sérstaklega þá þannig að ESA gerir athugasemdir við viðmiðunarmörk framkvæmda, þau sem fram koma í viðaukunum, sem varða stærð og staðsetningu framkvæmdanna sem eru í ákvæðum 1. og 2. viðauka í lögunum eins og þau líta út núna og falla sem sagt inn í A- og B-hluta í nýja frumvarpinu. Eins og hér hefur áður komið fram er viðbót við viðaukana, þ.e. C-hluti framkvæmdanna, en ætlunin með framsetningunni er að úrvinnsla þeirra mála sé eins hnökralaus og nokkurs er kostur og til þess stendur einlægur vilji.