141. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2012.

mat á umhverfisáhrifum.

87. mál
[16:28]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hér er komið mál öðru sinni eða öllu heldur þriðja sinni til þings þannig að það er ekki rétt hjá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur að það beri brátt að og sé sett í forgang á undan brýnum málum sem leysa þarf fyrir fólkið í landinu. Málið er nokkurn veginn óbreytt frá því að það var flutt hér í fyrra. Mér skilst, og kannski hefur það komið fram í ræðu hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra án þess að ég hafi tekið eftir því, að það séu örlitlar breytingar á ákvæðum um vegi. Að öðru leyti eru þetta sömu efnislegu breytingarnar í framhaldi af athugasemdum ESA til umhverfisráðuneytisins og athugun á þeim dómum sem koma við þetta mál. Það þarf auðvitað að athuga á ný í umhverfis- og samgöngunefnd. Þar að auki eru lagatæknilegar breytingar og tilraun til einföldunar í þessum bálki.

Efnisbreytingarnar eru fyrst og fremst breytingar á viðmiðunarmörkum. Það er merkilegt að þær athugasemdir sem ESA gerir ríma við gagnrýni sem verið hefur innan lands á þessi lög og viðmiðunarmörk allt frá því að lög um mat á umhverfisáhrifum voru sett fyrir sennilega rúmum áratug.

Ég ætla ekki að fara yfir þau atriði. Þau eru of mörg til þess. Ég vil bara nefna nokkur.

Skógrækt er nú, eins og ég skil það, öll tilkynningarskyld. Eitthvað af henni var áður í 2. viðauka og var metið hverju sinni. Það er samkvæmt réttum skilningi á þeim leiðarlögum sem spretta fram af samstarfi okkar við aðrar Evrópuþjóðir. Ég tel að það sé jákvætt. Í skógrækt felst veruleg breyting á landnýtingu. Skógrækt hefur margs konar áhrif, oftast jákvæð. Hún hefur meðal annars áhrif á landslag sem ekki eru alltaf jákvæð. Eins og rakið er hér í greinargerðinni eru Íslendingar nú loksins orðnir aðilar að landslagssáttmálanum. Ég óska okkur til hamingju með það af því að ég held að það hafi ekki komið fram í þessum sal áður. Við höfum auknar skyldur í þessu efni. Undir það verðum við að beygja okkur, líka skógræktarmenn. Ég held að það verði þeim og landinu til heilla þegar fram í sækir.

Ég vil hins vegar gera athugasemd við að ráðherrann heldur sig við 200 hektara mörkin í frumvarpinu og ætlast til að skógrækt á minna flatarmáli komi ekki til skoðunar við mat á umhverfisáhrifum. Ég tel og hef lengi talið að það séu allt of víð vikmörk. Í umræðunni áðan var talað um íslenskar aðstæður. Ég held að íslenskar aðstæður séu þær að við eigum að hafa þrengri vikmörk hér á landi, hvað sem Evrópuríkjunum líður. Það er ekki til þess að trufla skógræktarmenn heldur til þess að skógræktin sé skipuleg og í samræmi við þá landnýtingu og það landslag sem við viljum viðhalda í byggðum okkar.

Fleira er gert með þessu frumvarpi. Til dæmis er ákvæði um efnistöku á hafsbotni og á landi. Þau eru aukin með því að svokölluð haugsetning er sett þar inn og undir sömu skilyrði. Ég held að það sé mjög jákvætt. Menn verða að vita hvað þeir ætla að gera við efni sem þeir grafa upp af hafsbotni eða landi, svo sem úr jarðgöngum, og verða að ganga frá því á einhvern hátt. Þótt umhverfisrétturinn hafi þroskast og þróast hér í allmörg ár, þau eru nú kannski ekki nema um það bil 20, virðast náttúra Íslands og landamæri umhverfisréttar ná að flæðarmálinu. Það er kominn tími til að afgangurinn af Íslandi sé undir sömu reglur settur og landið sjálft.

Hér eru sett skilyrði um að uppsett afl í vatnsorkuverum sé lækkað í 200 kílóvött. Ég held að það sé jákvætt. Eins er hér nýr kafli um vindbú, sem er gott nýyrði, o.s.frv. sem verður fróðlegt að skoða betur í nefndinni.

Ég vil sérstaklega taka fram að ég tel það góða breytingu á listanum, sem var 3. viðauki en verður nú 2. viðauki, sem varðar forsendur fyrir ákvörðun um matið, þ.e. forsendurnar sem á að horfa á þegar ákveðið er hvort tiltekin framkvæmd sé matsskyld eða ekki. Þar er bætt við að taka skuli tillit til þess ef svæðið er á náttúruminjaskrá, ef það er á náttúruverndaráætlun frá þinginu eða ef það er á verndarsvæði samkvæmt þingsályktunartillögu um rammaáætlun. Fundið var að því í einstaka umsögnum í fyrra en ég tel að það sé alveg sjálfsagt mál. Þetta eru svæði á leið til friðlýsingar, þau hafa auðvitað ákveðna stöðu sem slík sem á að viðurkenna í ferli eins og þessu. Það verður að sjálfsögðu að taka tillit til þessa við ákvörðun um hvort meta á umhverfisáhrif framkvæmda sem menn fyrirhuga á þessum svæðum.

Lög um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og fleiri lagabálkar í umhverfisrétti hafa fengið orð fyrir að vera flóknir. Menn hafa talað um skriffinnsku og mikið leyfabákn. Það er að sumu leyti rétt, þannig verður það að vera að einhverju leyti. Við erum að reyna að verja rétt almennings. Við erum að reyna að vernda náttúru og umhverfi. Við erum líka að skapa öryggi fyrir fyrirtæki, atvinnulíf og framkvæmendur. Mér sýnist að með þessu frumvarpi sé verið að reyna að einfalda málið ef eitthvað er, að setja skýrari reglur og gera uppsetningu þeirra betri. Við þurfum að halda áfram með það í umhverfisrétti og í umhverfislöggjöfinni. Mér hefur stundum komið til hugar að kannski sé tími til kominn að stofna einhvers konar samgöngumiðstöð fyrir þá sem eiga helst undir þessa löggjöf, fyrirtæki og atvinnurekendur, en líka fyrir þá sem vilja gera athugasemdir og kynna sér málin. Það er stundum í öðrum fræðum og öðrum stöðum, einkum í umræðu um innflytjendur og flóttamenn, kallað á ensku „one stop shop“, ég veit ekki hvað ætti að kalla það á íslensku en best væri að kalla það samgöngumiðstöð, þannig að menn geti á einum stað fengið yfirlit yfir það sem þeir eiga að gera og jafnvel skilað inn plaggi sem unnið væri fyrir þá inn í leyfisumsóknir og skýrslur, eða að minnsta kosti gefnar góðar leiðbeiningar um það hvernig það ætti að gera.

Vegna þeirrar umræðu sem fram fór í andsvörum áðan sakna ég hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur úr salnum vegna þess að hún þarf að veita svör við því eftir gagnrýni sína á frumvarpið og þessa lagabálka alla hvort hún stefnir í raun og veru að því að Ísland sé aðili að samstarfinu á efnahagssvæði Evrópu. Þetta er þaðan, þetta er ekki í tengslum við umsóknina að Evrópusambandinu. Þetta er ósköp einfaldlega í framhaldi af aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu sem samþykkt var hér fyrir 17 eða 18 árum með meirihlutafylgi úr þeim flokki sem þingmaðurinn er fulltrúi fyrir á þinginu. Það væri fróðlegt að vita hvernig háttar til í Framsóknarflokknum, sérstaklega í heilabúinu á hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, hvort hún styður í raun aðildina að Evrópska efnahagssvæðinu eða hvort hún hefur aðrar hugmyndir um framtíðarsamstarf Íslands (Forseti hringir.) á þessu sviði.

(Forseti (ÞBack): Forseti vill biðja hv. þingmann að gæta orða sinna.)

Forseti. Ég vissi ekki að hér væri bannað að nefna það sem er innan í höfðinu á þingmönnum, en ég skal gæta þess að vega ekki að einum eða neinum, allra síst að hv. þingmanni.

Það verður svo að lokum hlutskipti mitt að segja það í tilefni af orðum Vigdísar Hauksdóttur og reyndar þeirri gagnrýni á umhverfislöggjöfina og regluverkið í kringum mat á umhverfisáhrifum, sem oft kemur fram og er skiljanleg, að hugsunin með því er ekki að þrengja að atvinnulífinu, að fyrirtækjunum, að fólki sem vill ráðast í framkvæmdir, þvert á móti. Góðar reglur og ferlar sem upp eru settir í stjórnsýslunni eiga einmitt að hjálpa fyrirtækjum, framkvæmendum og atvinnulífinu við að fara í framkvæmdir og reka fyrirtæki sín og halda uppi störfum í landinu. Ef menn aga sig til þess að hlíta þeim reglum sem til þarf til þess að virða rétt annarra, almennings, og sjónarmið um náttúruvernd og umhverfisvernd komast þeir einmitt hjá þeim deilum og vandræðum sem íslensk fyrirtæki og aðrir hlutar af atvinnulífinu hafa lent í hvað eftir annað miklu síðar í framkvæmdaferlinu þegar það veldur verulegur vandræðum og miklum kostnaði og hefur jafnvel endað með því að fyrirtækin hafa gefist upp vegna þess að endirinn var ekki skoðaður í upphafi.