141. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2012.

bókasafnalög.

109. mál
[17:15]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til bókasafnalaga. Ég vil byrja á að fagna því að frumvarp þetta sé fram komið og þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir að tryggja það að þetta mál komi fyrir þingið. Ég geri mér vonir um að við náum, eins og við höfum gert í hv. allsherjar- og menntamálanefnd á liðnum missirum, góðri samstöðu um að tryggja framgang málsins. Það er mikilvægt að fram sé komið frumvarp að eins konar rammalöggjöf um opinber bókasöfn í landinu, hvort sem þau eru rekin af ríki eða sveitarfélögum, og eitt mikilvægasta markmið frumvarpsins er einmitt það að tryggja að samvinna þeirra á milli geti aukist, sem er afar mikilvægt.

Ekki er laust við að hugurinn reiki aftur til tíunda áratugarins þegar tókst loksins eftir áratugabaráttu að opna Þjóðarbókhlöðuna á Melunum. Þá voru ýmsir með áhyggjur, háskólamenn, stúdentar við Háskólann og fleiri, af fátæklegum bókakosti Þjóðarbókhlöðunnar sem ætti að sinna öllu landinu, en óhætt er að segja að sá tími sem síðan hefur liðið endurspegli í raun og veru algjöra byltingu í starfsumhverfi bæði þess safns og reyndar upplýsingamiðlunar í landinu. Hin rafræna upplýsingamiðlun hefur gert það að verkum að það er í einhverjum skilningi álitamál hvort bókasafn yfir höfuð er réttmætt heiti yfir þá starfsemi sem fer fram í þeim stofnunum á 21. öldinni, stofnunum sem eru, eins og hæstv. ráðherra benti réttilega á, ekki síst þjónustustofnanir við þá sem vilja styrkja sinn fræðilega grundvöll við nemendur, fræðimenn og almenning í landinu.

Ég er þeirrar skoðunar, þó að einhverjum kunni að finnast að mikilvægi bókasafna í hefðbundnum skilningi fari kannski þverrandi með tilkomu netsins, að mikilvægi þeirra muni þvert á móti aukast í framtíðinni og kannski ekki síst í samhengi við kröfurnar um aukna áherslu á einstaklingsmiðað nám í skólakerfinu, nám sem miðist við þarfir, hæfileika og áhugasvið hvers nemanda. Ég tel að það sé frumforsenda fyrir því að við náum að auka útbreiðslu þeirra vinnubragða í skólakerfinu að bókasöfn séu öflug úti um allt land og að þau verði enn mikilvægari auðlind fyrir nemendur sem vilja finna verkefnum sínum og rannsóknum traustan og víðtækan fræðilegan grundvöll.

Það er full ástæða til að vekja athygli á því jöfnunarhlutverki bókasafna sem kemur fram í 6. gr. frumvarpsins, að þeim er ætlað að jafna aðgengi að menningu og þekkingu, og í því skyni er lykilatriði að forustusafn eins og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn hafi víðtæka samvinnu við bókasöfn úti um allt land.

Þarna eru gamlir kunningjar eins og ákvæði um gjaldtökuheimildir sem við fórum vel yfir í menntamálanefnd á sínum tíma í frumvarpi um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn og eðlilegt og sjálfsagt að styrkja lagalegan grundvöll gjaldtökuheimilda eins og þarna er gert. Það er sömuleiðis fagnaðarefni að ákvæði laga um Blindrabókasafnið séu felld inn í þessi lög og Hljóðbókasafni Íslands gert hátt undir höfði, því að ekki er hægt að ofmeta mikilvægi þess safns fyrir blinda, daufblinda, eldri borgara og aðra sem nýta sér kröftuga starfsemi og blómlega sem fer fram í því ágæta safni.

Ég ítreka þakkir mínar til hæstv. ráðherra mennta- og menningarmála fyrir að leggja þetta frumvarp fram og vonast til góðrar samvinnu í allsherjar- og menntamálanefnd um frekari meðferð þess.