141. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2012.

bókasafnalög.

109. mál
[17:20]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu hennar að frumvarpi til bókasafnalaga.

Mig langar að fjalla örlítið um frumvarp þetta, tel að ýmislegt í því sé af hinu góða en annað ekki. Þegar talað er um gildissvið í 2. gr. þá eru sum almenningsbókasöfn nefnd, og ég vænti þess að undir þau falli þá hin svokölluðu héraðsbókasöfn, þau falli að því sem heitir almenningsbókasöfn, vegna þess að héraðsbókasafn er einfaldlega til og það fellur væntanlega þá undir þetta orð, almenningsbókasafn.

Í 7. gr. stendur: „Öllum sveitarfélögum er skylt að standa að slíkri þjónustu í samræmi við þessi lög.“ Hins vegar tel ég mig hafa lesið annars staðar í þeirri grein að það sé líka heimilt fyrir sveitarfélög að koma sér saman um að reka slík söfn. Í því sveitarfélagi sem ég bý í þá er það samrekið með hluta af Kjósverjum og gekk undir nafninu Héraðsbókasafn vegna þess að fleiri en eitt sveitarfélag stóðu að því safni. Ég geri því ráð fyrir að við séum ekki að víkja neitt frá þeim reglum.

Mig langar að spyrja um 8. gr. Af hverju telur ráðherra ástæðu til að setja sérstaka stjórn fyrir almenningsbókasöfnin? Hver er í raun og veru tilgangurinn þegar bókasöfnin eru rekin af sveitarstjórnum? Við erum búin að leggja niður stjórnir í heilsugæslu og öðru þess háttar eins og var, nema í Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, en annars staðar voru slíkar stjórnir lagðar af. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra af hverju hún telur þetta nauðsynlegt og hvort ekki sé eðlilegt eða fullnægjandi að sveitarstjórnin sjálf sé stjórn yfir þessari stofnun sinni eins og öðrum stofnunum. Við erum ekki með skólastjórnir, við erum ekki með grunnskólastjórnir þó að við séum með formlegt skipulag. Ég velti fyrir mér hvort þetta þurfi sérstaklega. Ég verð að segja að mér finnst þetta eiginlega algjör óþarfi og sums staðar vart hægt að koma slíku við öðruvísi en að einstaklingar sitji jafnvel hringinn í kringum borðið.

Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra um 14. gr. Nú starfa almenningsbókasöfnin í það minnsta við og undir stjórn sveitarfélaga en eiga jafnframt árlega að láta ráðuneytinu í té skýrslu um fjármál sín og starfsemi í samræmi við lög og reglur. Mig langar að spyrja: Af hverju? Hver er tilgangurinn í raun og veru með þeirri upplýsingasöfnun ráðuneytisins og hvað hyggst ráðuneytið gera með slíkar upplýsingar? Samhliða í 18. gr. er engin skylda af hálfu sveitarstjórnar til að leggja fram ákveðið fé til bókasafna heldur er það undir og í ákvörðunarvaldi hverrar sveitarstjórnar fyrir sig. Fyrirspurn mín er: Hvað ætlar ráðuneytið að gera við þessar árlegu tölfræðilegu upplýsingar frá bókasöfnum, almenningsbókasöfnum og bókasöfnum almennt vítt og breitt um landið?

Mig langar einnig að spyrja hæstv. ráðherra um Hljóðbókasafnið. Ég fagna í sjálfu sér þeirri breytingu sem verið er að gera þar og tel hana til bóta. En mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort með því að setja þetta með þessum hætti sé jafnhliða gert ráð fyrir því að þeir sem einhverra hluta vegna, ekki endilega þeir sem ekki geta lesið venjulegar bækur, geta það ekki vegna sjónskerðingar, hvort lesblindum einstaklingum innan skólakerfisins verði almennt veittur aðgangur að Hljóðbókasafni Íslands á sama hátt og kannski öðrum þeim sem hingað til hafa notið þess að sækja sér spólur í Blindrabókasafnið. Og þá hvort almenningsbókasöfn, sem hugsanlega hafa samskipti við Hljóðbókasafn Íslands, geti með einhverjum hætti sett slíkt inn í samninga á milli annars vegar Hljóðbókasafnsins og svo almenningsbókasafna hins vegar. Ég held að þetta geti skipt máli fyrir þann sem á í erfiðleikum með lestur að það sé tryggt að hann geti haft aðgang að slíkum bókum, jafnt kennslubókum á grunnskólastigi og framhaldsskólastigi og öðru þess háttar.

Aftur langar mig að víkja að einu atriði, ég gleymdi því aðeins áðan. Ég hélt að við værum, en það kann að vera rangminni, yfir höfuð að hverfa svolítið frá þessum stjórnum. Eða er það rangt? Er það rangminni að fara ætti frá þessum stjórnum?

Hér stendur á bls. 15 í athugasemdum um 8. gr.:

„Skal stjórn almenningsbókasafns vera málsvari safnsins í samræmi við almennt hlutverk stjórna stofnana sem reknar eru í þágu almennings.“

Við ætlum að skipa stjórn safns sem sveitarstjórnir skipa sem jafnframt úthluta fjármunum til safnsins og svo á sú stjórn að standa vörð um safnið. Þetta eru kannski frekar vangaveltur, virðulegur forseti, en athugasemdir um stjórnir almenningsbókasafna.

Svo geri ég ráð fyrir eins og hæstv. ráðherra kom inn á í 19. gr. um þær gjaldtökuheimildir sem þarna er verið að ræða að það sé samræmt við álit umboðsmanns Alþingis sem fram kom og við þekkjum sem sátum í þáverandi menntamálanefnd. Og þá sé þessi grein væntanlega líka undanskilin, eins og sagt er um nemendur í grunn- og framhaldsskóla, að í skólasöfnum þar sé ekki hægt að innheimta sektir af nemendum. En nú geta nemendur jafnt í grunnskóla sem og framhaldsskóla sótt sér bækur og aðra tækni, upplýsingatækni og upplýsingar á hinum almennu almenningsbókasöfnum. Gildir það þá jafnhliða að það sé ekki hægt að sekta ef þeir aðilar á þeim aldri breyta ekki rétt, ef við getum orðað það svo?

Margt er hér til bóta og skynsamlega að verki staðið og það er í samræmi við það sem ráðherra hafði kynnt áður um þau frumvörp sem sú nefnd er skilaði af sér einhvern tíma á árinu 2004 (Gripið fram í: 2006.) eða 2006, að tillögur voru að frumvarpi til bókasafnalaga, tillögur að frumvarpi til laga um almenningsbókasöfn og tillögur að frumvarpi til laga um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. Við erum búin að afgreiða tvö og þrjú og þá kemur þetta hér sem enn eitt frumvarpið til laga um bókasöfn. Mig langar að biðja hæstv. ráðherra, ef hún tæki til máls að nýju, að svara kannski einhverjum af þeim vangaveltum sem ég hef hér velt upp.

Virðulegur forseti. Ég hef lokið máli mínu.