141. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2012.

bókmenntasjóður o.fl.

110. mál
[17:46]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég tel mjög mikilvægt að sá liður sem gert er ráð fyrir í fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar, og kallast verkefnasjóður skapandi greina, skili sér annars vegar inn í þá sjóði sem við eigum og að hv. þingmaður hefur í huga að leggja fram góða þingsályktunartillögu um stuðning við íslenska tónlist. Þar eigum við tónlistarsjóð og við eigum svo Útón, kynningarmiðstöð íslenskrar tónlistar, fyrir utan Íslenska tónverkamiðstöð.

Ég sé fyrir mér að annars vegar sé til að mynda hægt að nýta þessa fjármuni í að efla það sem fyrir er — ég nefni tónlistarsjóð, ég nefni líka bókmenntasjóð — og hins vegar til að byggja upp nýja sjóði á borð við sjóði á sviði myndlistar, sem við höfum nú stofnað með lögum en þurfum að byggja upp, og á sviði hönnunar, sem ekki hefur verið stofnaður með lögum.

Þar sé ég fyrir mér að þessir fjármunir gætu nýst. Þegar kemur hins vegar að starfsemi kynningarmiðstöðvar á borð við miðstöð íslenskra bókmennta, sem auðvitað er ekki eingöngu kynningarmiðstöð en gegnir því hlutverki líka, þá held ég að miklu máli skipti að við hugum að þeim til lengri tíma, þ.e. að þetta séu ekki eingöngu tímabundnir fjármunir eins og fjárfestingaráætlunin er hugsuð heldur að þarna sé hugað að lengri tíma fjárfestingu, þ.e. þetta er varanlegur rekstur, en utanumhald um svona mál þarf að vera mjög stíft til þess að svona verkefni gangi eftir. Ein af ástæðunum fyrir því að bókamessan gekk jafn vel og raun bar vitni var sú að lagður var metnaður og fjármunir í að halda utan um verkefnið, sem skilaði árangri, en hann kemur ekki af sjálfu sér.