141. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2012.

íþróttalög.

111. mál
[17:50]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á íþróttalögum, nr. 64/1998, með síðari breytingum, og varðar þessi breyting lyfjaeftirlit í íþróttum. Þetta frumvarp var lagt fram á síðasta löggjafarþingi en þá náði ég ekki að mæla fyrir því svo að það var ekki afgreitt.

Ísland hefur verið aðili að samningi Evrópuráðsins gegn misnotkun lyfja í íþróttum frá árinu 1989 sem og viðaukum við þann samning og svonefndri Kaupmannahafnaryfirlýsingu frá árinu 2003. Þá erum við líka aðili að samningi Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, frá árinu 2005, um þátttöku í starfi Alþjóðalyfjaeftirlitsins eða WADA og skuldbindingu við reglur stofnunarinnar um lyfjaeftirlit í íþróttum.

Frá árinu 1993 hefur það fyrirkomulag verið haft á skuldbindingum Íslands, samkvæmt samningi Evrópuráðsins, til að viðhafa lyfjaeftirlit í íþróttum, að fela framkvæmd eftirlitsins í hendur Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, ÍSÍ. Kostnaði af eftirlitinu hefur verið skipt á milli ÍSÍ og ríkisins.

Ég tel enga ástæðu til að fjölyrða hér um skaðsemi lyfjanotkunar í íþróttum, ég held að við séum öll sammála um hana og nauðsyn þess að berjast gegn henni, enda höfum við skuldbundið okkur að þjóðarétti til að viðhafa slíkt eftirlit í íþróttum hér á landi. Með þessu frumvarpi er lagt til að þessar skuldbindingar Íslands verði staðfestar og ráðherra verði heimilt að fela þar til bærum aðila að framkvæma lyfjaeftirlit fyrir hönd ríkisins með samningi sem sé gerður til allt að fimm ára í senn. Í frumvarpinu er lýst hæfisskilyrðum þess aðila sem tekur að sér lyfjaeftirlitið og skuldbindingum hans við reglur og staðla Alþjóðalyfjaeftirlitsins. Þá er lýst í frumvarpinu eftirlitsskyldu ráðherra með framkvæmdinni.

Við leggjum þetta til til þess að samræma fyrirkomulag hér á landi við lyfjaeftirlitið í öðrum Evrópulöndum. Af hálfu mennta- og menningarmálaráðuneytisins eru uppi áform um að samningur ríkisins við þar til bæran aðila um lyfjaeftirlit í íþróttum geti einnig tekið til annarra tengdra verkefna, til að mynda vitundarvakningar um lyfjamisnotkun í íþróttum og um skaðlegar afleiðingar hennar. En það mætti líka hugsa sér að það mætti fela slíkum aðila víðtækara hlutverk í samstarfi við Lyfjastofnun, tollyfirvöld, lögreglu og yfirvöld fangelsismála þar sem dæmin sýna að samvinna ólíkra aðila er líklegust til að skila víðtækustum árangri í baráttunni gegn auknum innflutningi og notkun ólöglegra lyfja, bæði hvað varðar notkun íþróttafólks í þjálfun og keppni en líka hvað varðar samstarf við aðila utan hins skipulagða íþróttasamstarfs, svo sem líkamsræktarstöðvar sem sóttar eru af almenningi.

Við undirbúning þessa frumvarps var haft samráð við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands. Ég á von á því að hv. allsherjar- og menntamálanefnd muni fara yfir þetta mál og kalla til samráðs þá sem tengjast þessum málum hér á landi en tel ekki ástæðu til að hafa mörg fleiri orð um það, tel að það skýri sig nokkuð sjálft. Ég vænti þess að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allsherjar- og menntamálanefndar.