141. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2012.

íþróttalög.

111. mál
[17:55]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt sem hv. þingmaður nefnir, lyfjanotkun á sér ekki eingöngu stað í skipulögðu íþróttastarfi innan Íþrótta- og Ólympíusambandsins og kannski síður þar en víðast hvar annars staðar. Það er ástæða þess að ég nefni þá sýn sem ég hef og ráðuneytið á það að þeim aðila sem verði falið að sinna eftirlitinu verði falið víðtækara hlutverk. Ég nefndi hugsanlega samstarfsaðila á borð við Lyfjastofnun, á borð við tollyfirvöld og á borð við lögreglu. Eins og hv. þingmaður nefndi kemur notkun á sterum og vefaukandi lyfjum til dæmis aðeins að litlu leyti fram í lyfjaprófunum á þeim sem eru í skipulögðu starfi íþróttahreyfingarinnar. Þess vegna viljum við víkka þetta samstarf út og ná til fleiri aðila.

Ég held að ákveðinn grunnur að því sé hins vegar vitundarvakning einmitt í þeim geira því að vissulega hefur verið unnið að henni innan íþróttahreyfingarinnar, að vekja fólk til vitundar um þessi mál. Þetta er nokkuð sem við þekkjum líka sem fylgjumst bara fyrst og fremst með af bekknum. En við teljum að það sé full nauðsyn á vitundarvakningu líka í því sem við getum kallað óskipulagt íþróttastarf sem fer fram um allt land og almenningur tekur mjög virkan þátt í, að vekja vitund fólks um hættuna sem getur stafað af slíkum efnum. Við sjáum fyrir okkur að þetta samstarf snúist ekki aðeins um eftirlitið með hinu skipulagða íþróttastarfi heldur verði það víkkað út og nái til þessara hluta líka.

(Forseti (ÁI): Forseti vill vekja athygli á því að það er eitthvert ólag á klukkunni í borðinu en tíminn er tekinn héðan úr forsetastóli.)