141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

aðkoma stjórnvalda að kjarasamningum.

[10:32]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Síðast þegar gerðir voru kjarasamningar á milli aðila vinnumarkaðarins áttu stjórnvöld beina aðkomu að málinu og hafði þá um nokkurt skeið verið lögð rík áhersla á að fá stjórnvöld að borðinu til að tryggja frið á vinnumarkaði og forsendur launahækkana til handa launþegum í landinu. Gerðir voru samningar sem við könnumst við sem stöðugleikasáttmála og hefur ýmislegt gengið á í þeim efnum undanfarin missiri. Nú liggur fyrir að fram undan, skömmu eftir áramót, eiga laun til launþega að hækka í þriðja sinn á grundvelli þessara samninga.

Nú ber svo við að báðir aðilar vinnumarkaðarins sem að málinu koma, Samtök atvinnulífsins og verkalýðshreyfingin, telja að stjórnvöld hafi í öllum veigamestu atriðunum ekki staðið við sinn hluta samkomulagsins. Það liggur í því að enn skortir mjög á að hér hafi orðið sú fjárfesting sem að var stefnt með atvinnusköpun. Það liggur líka í því að menn hafi ekki staðið við að lækka gjöld á atvinnulífið í samræmi við minna atvinnuleysi eins og nú liggur fyrir með fjárlagafrumvarpinu í formi tryggingagjaldsins. Raunar er það langur listi loforða sem bæði Samtök atvinnulífsins og ASÍ telja að enn sé óuppfylltur af hálfu stjórnvalda. Þetta skapar þær alvarlegu aðstæður að forsendur samninganna geta verið í uppnámi og nú er horft til stjórnvalda um efndir á þeim loforðum sem gefin voru á sínum tíma.

Hvernig hyggst forsætisráðherra bregðast við ummælum forustumanna aðila vinnumarkaðarins um svik ríkisstjórnarinnar og hvernig hyggst ríkisstjórnin endurheimta það traust (Forseti hringir.) sem nauðsynlegt er til að forsendur kjarasamninga lendi ekki allar í uppnámi?