141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

aðkoma stjórnvalda að kjarasamningum.

[10:36]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það vill svo til að við í stjórnarandstöðu á þinginu skiljum kannski betur en margir hvað átt er við þegar talað er um að svíkja gefin loforð. Síðast kom það í ljós í samskiptum stjórnarandstöðunnar við ríkisstjórnina að fyrirheit um að standa við samkomulag sem gert var í tengslum við endurskoðun fiskveiðistefnunnar er komið upp í loft þrátt fyrir skriflegar yfirlýsingar frá ríkisstjórninni um allt annað.

Er hægt að kenna ríkisstjórninni um hvað eina? Vissulega er það ekki svo að hægt sé að kenna ríkisstjórninni um hvað eina sem fer öðruvísi en við vonuðum. En ríkisstjórnin verður hins vegar að kannast við að forsendur kjarasamninganna voru þær að hér yrði allt gert til að tryggja um 4–5% hagvöxt. Ríkisstjórnin verður líka að kannast við að þegar hún lofar því að atvinnutryggingar og atvinnuleysisbætur hækki í samræmi við það sem er að gerast í kjarasamningum verður hún að standa við það, ella verður henni borið á brýn að hafa svikið gefin loforð. Það er þess vegna sem forusta verkalýðshreyfingarinnar ASÍ segir í dag (Forseti hringir.) að það sé töluverð innstæða fyrir mikilli reiði í garð stjórnvalda. Það er vegna þess að menn standa ekki við gefin fyrirheit. (Forseti hringir.) Þetta verður forsætisráðherra að kannast við.