141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

bætt vinnubrögð á þingi.

[10:42]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að taka upp þetta mál á þingi enda hefur hv. fyrirspyrjandi sýnt það bæði úr ræðustól og með framlagningu mála að hún vill leggja sitt af mörkum til að bæta starfshætti þingsins. Ég vil segja að við hljótum öll að reyna að bæta hér úr á þessu þingi og hefur ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir lagt sig fram um það með samtölum við formenn stjórnarflokkanna. Meðal annars verði reynt að ná samkomulagi um stærstu málin sem verða tekin til umræðu á þinginu, eins og hv. þingmaður nefndi, það verði ákveðið fyrir fram hve lengi umræðan muni standa og ríkisstjórnin leggi sig fram um að stóru málin komi fram á Alþingi sem fyrst, í upphafi þings. Það sem þingmaðurinn leggur til er fullkomlega í samræmi við það sem ríkisstjórnin leggur áherslu á svo að sannarlega tek ég undir að þetta sé gert.

Auðvitað þarf líka að tryggja með ýmsum hætti rétt stjórnarandstöðunnar eins og hv. þingmaður leggur til. Hún leggur til danska fyrirkomulagið, að minni hluti þingmanna geti krafist þess að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um tiltekin mál. Ef ég man rétt hefur þetta ekki verið mikið notað í Danmörku. Það gæti verið ástæða fyrir því en ég tel alveg sjálfsagt að skoða þetta, bæði að tryggja rétt minni hlutans að því er varðar þjóðaratkvæðagreiðslu og að skoða hvort hægt sé að auka hlut stjórnarandstöðunnar við stjórn þingsins með einhverjum hætti. Umfram allt þurfum við að ná samkomulagi, og það hefði þurft að gera í upphafi þings, um að breyta ræðutímanum. Það er út úr öllu korti hvernig hann er og að það sé endalaust hægt að (Forseti hringir.) halda uppi málþófi í smáum sem stórum málum.