141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

launamál á ríkisstofnunum.

[10:52]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svarið. Það er áhugavert að sagt sé að aldrei hafi staðið til að hafa þetta öðruvísi en að það sneri að dagvinnulaununum. Auðvitað vita menn að launasamningarnir eru mjög mismunandi og manni finnst þetta hljóma eins og aldrei hafi staðið til að framfylgja þessum lögum í raun.

Hæstv. forsætisráðherra segir að tíu manns séu með hærri laun í stjórnkerfinu. Í heilbrigðisþjónustunni er til dæmis augljóst að mun fleiri hafa hærri laun en forstjórinn, jafnvel eftir þá hækkun sem honum bauðst en hann afþakkaði síðan. Ef hækkunin hefði náð fram að ganga væru samt sem áður fleiri starfsmenn innan spítalans með hærri laun en forstjórinn.

Af því að hæstv. forsætisráðherra talaði um samkeppnismarkaðinn og nefndi í því sambandi Landsvirkjun og Landsbankann þá erum við í mjög mikilli samkeppni um fólk í heilbrigðisþjónustunni, bæði stjórnendur og hæfa einstaklinga. Ég hvet því hæstv. forsætisráðherra til að taka mið af því þegar hún ræðir þessi mál.