141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

aðildarumsókn Íslands að ESB.

[10:53]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Verið er að leggja drög að því núna hjá ríkisstjórnarflokkunum að beina því til stjórnmálaflokka að ESB verði ekki næsta kosningamál. Það kom meðal annars fram í umræðuþætti í síðustu viku að ríkisstjórnarflokkarnir líta svo á að ESB verði ekki kosningamál. Það þykir mér afar undarlegt miðað við þann forsendubrest sem orðið hefur eftir að naumur meiri hluti Alþingis lagði inn umsókn að Evrópusambandinu, því að mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan sumarið 2009 í málefnum Evrópusambandsins. Er þar skemmst að minnast þróun evrunnar og svo umræðan sem fram fer á Evrópusambandsvettvangnum um að nú þurfi að gera sambandið líkara sambandsríki og að sameina þurfi ýmsar stofnanir. Nýlega hafa borist fréttir af umræðu í Evrópusambandinu um að nauðsynlegt sé að koma á fót einu samevrópsku utanríkisráðuneyti og sú skoðun er enn að færast í aukana að Evrópusambandið líti svo á að nauðsynlegt sé fyrir sambandið að hafa samevrópskan her.

Við vitum um umræðuna sem fram fór hér á landi varðandi fjármálamarkaðinn og þær kröfur sem gerðar eru á okkur Íslendinga að tilheyra hinu samevrópska fjármálaeftirlitskerfi. Því langar mig til að spyrja hæstv. utanríkisráðherra í ljósi þróunar Evrópusambandsins í þeirri sambandskreppu sem er í gangi núna: Er ekki fullkominn forsendubrestur fyrir því að halda áfram með Evrópusambandsumsóknina? Hæstv utanríkisráðherra hefur ætíð sagt að við værum ekki að ganga inn í sambandsríki heldur yrðum við sjálfstæð þjóð á meðal þessara Evrópuþjóða. Er ekki rétt að staldra við, hæstv utanríkisráðherra?