141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

aðildarumsókn Íslands að ESB.

[10:56]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Sem fyrr þá er ég þakklátur fyrir umhyggju hv. þingmanns fyrir velferð Evrópusambandsins. Sennilega hefur hún ekki fylgst með síðustu tíðindum af þeim bæ og þau eru þá kannski helst tvenn:

Í gær lýsti Barroso, framkvæmdastjóri ESB, því yfir að ekki væri stefnt að neinu öðru en því að ríkin yrðu áfram þjóðríki innan Evrópusambandsins eins og þau eru. Hv. þingmaður þekkir þá skilgreiningu betur en aðrir.

Í öðru lagi er skammt síðan Mario Draghi, sem er bankastjóri Seðlabanka Evrópu, lýsti því yfir í fyrsta skipti að bankinn mundi gera allt það sem þyrfti til að lækna evruna af þeim meinum sem hana hafa vissulega þjáð. Það ber að lesa í tengslum við niðurstöðu stjórnarskrárdómstólsins í Karlsruhe í síðustu viku. Það sýnir að leiðtogar Evrópu eru í fyrsta skipti að manna sig upp í að rífa upp úr sjálfum sér það sem þarf til að koma evrunni aftur á kjöl. Það er pólitískur styrkur og pólitísk sýn. Ég er þeirrar skoðunar að núna horfi töluvert betur um framtíð evrunnar en áður. Það verður tíminn að leiða fram og ég er viss um að hv. þingmaður hefur á því aðrar skoðanir en ég. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það sé allsendis ótímabært að velta því fyrir sér að stöðva eða draga umsóknina til baka. Ástæðan kom fram í skýrslu Seðlabankans í vikunni. Þar er það alveg skýrt að það eru tveir valkostir, að halda áfram með krónuna í því ásigkomulagi sem hún er eða að eiga þann valkost að taka upp evruna síðar. Ef við mundum hætta við umsóknina væri verið að svipta Íslendinga þeim möguleika að taka upp evruna jafnvel þó að þeir kæmust síðar að þeirri niðurstöðu að það væri farsælast fyrir þjóðina. Ég er auðvitað þeirrar skoðunar í dag.