141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

aðildarumsókn Íslands að ESB.

[10:58]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mér sýnist hæstv. utanríkisráðherra hafa farið með ranga ræðu á röngum tíma því að við erum að fara að ræða evruna á eftir. Ég spurði um þróun Evrópusambandsins sjálfs og þá kröfu Evrópusambandsins að sameina frekar þær grunnstoðir þjóðanna sem standa að sambandinu. Minntist ég á þá kröfu að það yrði ein utanríkisstefna með einum utanríkisráðherra sambandsins, svo ég endurtaki það, og jafnframt á þá hugmynd að nauðsynlegt væri fyrir sambandið að taka upp sameiginlegan evrópskan her.

Ég lét það alveg ógert í þetta sinn að ræða hótanir og kúganir Evrópusambandsins í makríldeilunni. Verið er að reka mál gagnvart okkur fyrir EFTA-dómstólnum varðandi Icesave. Um evruna spurði ég ekki enda verður hún rædd eftir þennan dagskrárlið. Ég spurði hæstv. utanríkisráðherra um þróunina því að nú er verið að færa Evrópusambandið í átt að sambandsríkjum Bandaríkjanna, að hafa eina yfirstjórn. Og úr því að ráðherra minntist á þjóðríki mundu halda sínu er það líka svo með ríki Bandaríkjanna (Forseti hringir.) að þau hafa sérlög og halda að vissu leyti sjálfstæði. Verið er að færa Evrópusambandið í átt að Bandaríkjunum.