141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

aðildarumsókn Íslands að ESB.

[10:59]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það er hugsanlegt að hv. þingmaður hafi verið að hlusta á ranga ræðu. Ég var að vísa til þess að Barroso hefði lýst því alveg skýrt yfir í gær að það væri ekki ætlun hans eða annarra leiðtoga Evrópusambandsins að leysa upp þjóðríkin. Þær breytingar sem gerðar kynnu að verða á Evrópusambandinu mundu ekki leiða til þess, því að það lá auðvitað í spurningu hv. þingmanns ef hún skilgreinir þjóðríki með svipuðum hætti og menn gera almennt.

Í öðru lagi hefur komið algjörlega skýrt fram hjá leiðtogum sterkustu Evrópusambandsríkjanna að þau telja ekki að þær breytingar sem fyrirhugaðar eru muni leiða til einhverra róttækra breytinga á þeim sáttmálum sem eru undirstaða Evrópusambandsins. Það er svarið við þeirri spurningu. Svo vil ég biðja hv. þingmann um að fylgjast bara örlítið betur með því sem er að gerast í Evrópusambandinu og koma ekki og spyrja hér spurninga sem eru löngu úreltar. (VigH: Fylgistu sjálfur með þessu?)