141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

ummæli forsætisráðherra um stöðu kjarasamninga.

[11:08]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs undir þessum lið og vil ræða dagskrá þingsins í dag. Hér áðan féllu þau orð hjá hæstv. forsætisráðherra að það væri til athugunar hvort ríkisstjórnin ætti að koma að gerð kjarasamninga eins og verið hefur í ljósi þeirra svikabrigsla, eins og það var orðað, af hálfu talsmanna atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar.

Þetta er mjög alvarleg yfirlýsing. Ég legg til að að loknu hádegishléi klukkan 13.30 verði boðað til sérstakrar umræðu þar sem forsætisráðherra verði gefinn kostur á að draga ummæli sín annaðhvort til baka eða skýra þau nánar. Fyrir liggur frá forystumönnum Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambandsins að kjarasamningar eru nú í uppnámi, m.a. vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekki staðið við fyrirætlanir sínar og þau loforð sem gefin hafa verið. Menn telja að ekki sé grundvöllur fyrir umsömdum kjarahækkunum. Við erum að tala um launahækkanir til almennings á Íslandi. Við þær aðstæður verður forsætisráðherra að fá tækifæri til að skýra þessi ummæli sín eða draga þau til baka.