141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

ummæli forsætisráðherra um stöðu kjarasamninga.

[11:10]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Mér finnst það tilefni sem hv. þingmaður er að rekja ekki gefa ástæðu til, eftir tvo, þrjá klukkutíma, að fara að kalla til sérstakrar umræðu. Ég tel að það sé alger óþarfi að efna til slíkrar umræðu út af ummælum mínum áðan sem hann vitnaði til, að vísu ekki orðrétt.

Ég fór ítarlega yfir það áðan að ég taldi þetta ekki réttmætar ásakanir. Það var verið að ásaka okkur um að hafa ekki staðið í stórum dráttum við þessa kjarasamninga. Það er sí og æ verið að brigsla okkur um það. Ríkisvaldið átti mjög stóran hluta í kjarasamningunum sem voru gerðir fyrir tveimur árum og við höfum lagt okkur mjög fram um að standa við þá. Það sem ég átti við er að við hljótum að skoða í framtíðinni hvort það sé eðlilegt að ríkisvaldið eigi (Forseti hringir.) svona stóran hluta í kjarasamningunum miðað við þá þróun sem orðið hefur (Forseti hringir.) og í ljósi þess sem við höfum orðið að sitja undir af hálfu aðila vinnumarkaðarins í þessu sambandi. Ég tel ekkert tilefni til utandagskrárumræðu út af þessum ummælum.