141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

valkostir Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum.

[11:17]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Íslenska efnahagshrunið var öðrum þræði hrun gjaldmiðils, íslensku flotkrónunnar sem braskarar tóku stöðu í hægri, vinstri. Það er skylda okkar við almenning og við komandi kynslóðir að tryggja landinu traustari gjaldmiðil til framtíðar því að Reykjavík, Ísland má aldrei aftur verða leikvöllur fyrir erlenda vogunarsjóði sem hingað koma í þeim tilgangi einum að leika sér að fjöreggi okkar eins og hverjum öðrum skopparabolta með þeim gríðarlega skelfilegu afleiðingum sem það hafði fyrir fólk og fyrirtæki hér í landinu.

Það er þess vegna fagnaðarefni að hafa fengið ítarlega skýrslu Seðlabanka Íslands sem dregur það fram svo ekki verður um villst að við Íslendingar eigum tvo raunhæfa valkosti í þessum efnum, íslensku haftakrónuna eða aðild að evrópska myntsamstarfinu og evruna. Við hefðum raunar ekki átt að þurfa hrunið til að hugsa um hvernig við gætum losnað við íslensku krónuna því að krónan fyrir hrun og haftakróna síðustu aldar skilaði okkur óstöðugleika, óðaverðbólgu, verðmætarýrnun og hæstu vöxtum sem finna má í heimshluta okkar.

Það er sérstakt fagnaðarefni að í skýrslunni eru tekin af tvímæli um að einhliða upptaka annars gjaldmiðils er of áhættusöm, það felur í sér of mikið framsal fullveldis og of lítinn ávinning til þess að það geti talist raunhæfir valkostir eða ábyrg afstaða í efnahagsmálum. Og þó að það væri óráð að taka upp evruna í dag kunna að skapast kjöraðstæður á næstu missirum til að ganga inn í evrópska myntsamstarfið.

Þetta er svona: Takist að leysa úr skuldavanda Suður-Evrópu er evran líklegust til að hjálpa okkur Íslendingum við að losna úr höftum, við að draga úr sveiflum, við að lækka verðbólgu, við að lækka vexti, við að auka útflutningstekjur, við að draga úr viðskiptakostnaði, auka erlenda fjárfestingu og samkeppnishæfni, og það er algjört ábyrgðarleysi að vilja hætta viðræðum um þau brýnu hagsmunamál Íslendinga við Evrópusambandið áður en lyktir eru fengnar í þær viðræður.

Hvernig víkur þessu við? Við þurfum trúverðugan bakhjarl til að komast út úr höftunum. Sá trúverðugi bakhjarl er evrópska myntsamstarfið. Íslenska krónan hefur magnað upp óstöðugleika og sveiflur í hagkerfi okkar, við aukum við líkur á stöðugleika hér á landi með því að leggja henni. Verðbólgan á Evrópska svæðinu er 2,1% þrátt fyrir erfiðleikana og íslensk verðtryggð heimili gæfu sennilega mörg aðra höndina til að fá að búa við þann stöðugleika og þá lágu vexti sem fylgja svo styrkri efnahagsstjórn. Vextirnir á evrópska svæðinu hafa auðvitað langtímum saman verið miklu lægri en hér, það þekkja allir Íslendingar.

Það sem kannski færri vita er að skýrsla Seðlabankans dregur meðal annars fram að sú þróun er líkleg til að auka útflutningstekjur okkar um 1,5–11% á ári. Það þýðir 20–160 milljarða í tekjur fyrir Ísland á ári hverju, varanlega aukningu landsframleiðslu. Á sama tíma getur hún dregið úr viðskiptakostnaði okkar um 5–15 milljarða á ári fyrir utan það að þá þurfum við ekki lengur að bera gríðarlegan kostnað sem fylgir því að fjármagna þann stóra gjaldeyrisvarasjóð sem við höfum haft. Auk þess sýna rannsóknir að inngönguríkjum í myntsamstarfi vegnar miklu betur við að draga til sín erlenda fjárfestingu og við þurfum einmitt erlenda fjárfestingu nú sem aldrei fyrr.

Ágætu alþingismenn. Spurningin er ekki hvort við hættum að nota íslensku krónuna, spurningin er bara: Hvenær tökum við upp þann gjaldmiðil sem ráðandi er á helstu markaðssvæðum okkar? Tíminn kynni að vera á næstu missirum. Það er skylda okkar þvert á flokka sem forustumanna í þessu þjóðríki að kanna til hlítar þá raunhæfu kosti sem við eigum í því sambandi. Ég trúi því ekki að stjórnarandstaðan vilji ekki láta reyna á hvort sú raunhæfa leið sem Seðlabankinn bendir á (Forseti hringir.) sé fær en ætli að bjóða okkur upp á gömlu haftakrónuna sem einu lausn sína í efnahagsmálum þessarar þjóðar.