141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

valkostir Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum.

[11:32]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Við tæmum náttúrlega ekki umræður um 500–600 blaðsíðna skýrslu á hálftíma, allra síst þar sem almennir þátttakendur fá aðeins tvær mínútur. Það má kannski segja að þetta sé ágæt upphitun fyrir umræðu sem vonandi verður um þetta viðamikla mál.

Ég tel þessa skýrslu gott gagn, góðan grunn til áframhaldandi umræðna. Þetta er fróðleg lesning og ég sé ekkert eftir þessum 500–600 blaðsíðum. Þarna eru margir áhugaverðir kaflar þar sem farið er dýpra ofan í málin en væntanlega hefur verið gert í 200 blaðsíðna skýrslunni þó að hún kunni að vera góð til síns brúks (Gripið fram í.) og standast tímans tönn.

Það sem ég tel líka kost við skýrsluna er að hún er góð leiðsögn um næstu skref. Hún afgreiðir út af borðinu ýmsar lítt raunhæfar hugmyndir um skyndilausnir. Það er rétt, eftir standa þessir tveir meginvalkostir tiltölulega skýrt og annar þeirra er okkar eigin gjaldmiðill áfram í bættri og breyttri umgjörð. Um það held ég að allir séu sammála. Ég vil segja fyrir mitt leyti, og það er ekki nýtt, að þó að það sé augljóslega og verði agandi og krefjandi verkefni að standa þá þannig að málum að það sé farsælt eigum við að hafa kjark og sjálfstraust til að varða þá leið. Ég skil satt best að segja ekki málflutning um annað vegna þess að það er svo augljóst raunsæismat á stöðunni að það gæti mjög líklega orðið það sem okkar bíður. Við eigum heldur ekki að tala þá leið niður. Við eigum að láta það njóta vafans að við getum staðið betur og ábyrgar að málum.

Hinn meginvalkosturinn er augljóslega innganga í myntbandalag og upptaka evru. Að mínu mati eiga menn líka að horfast í augu við að sú niðurstaða yrði væntanlega ekki endanleg fyrr en eftir hálfan til einn áratug og það kemur skýrt fram í skýrslu Seðlabankans að sá kostur er líka varðaður óvissu um það hvernig til tekst að leysa vanda evrusvæðisins og Evrópusambandsins og hann er varðaður óvissu af meiri toga.

Að lokum og aftur, frú forseti, það sem ég tel mikilvægast við skýrsluna og gagnlegast er að hún er skýr um það sem þarf að gera (Forseti hringir.) í næstu skrefum, hvað okkar bíður næstu mánuði og missiri. Um það á ekki að þurfa að deila, það er að bæta þá umgjörð (Forseti hringir.) sem við búum við í dag og munum í öllu falli gera til alllangs tíma í viðbót.