141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

valkostir Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum.

[11:35]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Fljótt á litið virðist ekki margt nýtt í skýrslu Seðlabankans þó að hún sé á stærð við símaskrá. Það er ekki bara vegna þess að hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson hafi í pésa sínum dregið fram öll helstu atriðin sem birtast í þessari skýrslu, heldur hefur afstaða Seðlabankans og þeirra sem unnu þessa skýrslu lengi legið fyrir sem og rökstuðningur fyrir henni. Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson nefndi hins vegar þann vanda sem kynni að skapast vegna trúverðugleika Seðlabankans og áhrifa stjórnmálaástandsins. Það er áhyggjuefni út af fyrir sig. Við sáum til að mynda spá Seðlabankans um þróun viðskiptajafnaðar í aðdraganda kosninga um Icesave þar sem spáð var gríðarlegum afgangi af viðskiptajöfnuði. Eftir kosningarnar var þetta endurreiknað og kom í ljós að það var nánast enginn afgangur, þvert á móti raunar tap af viðskiptajöfnuði næstu árin.

Það sem er kannski einna merkilegast við þessa skýrslu er að í henni felst heilmikil sjálfsgagnrýni. Seðlabankinn er með þessari skýrslu að gagnrýna sjálfan sig og þá stefnu sem þar hefur verið rekin af sömu mönnum og skrifuðu skýrsluna. Þar komumst við einmitt að kjarna málsins, það er ekki sama hvaða stefnu menn fylgja í peningamálum burt séð frá því hvaða gjaldmiðil menn hafa. Gjaldmiðill er verkfæri og mælikvarði og ekki sama hvernig með hann er farið. Eins og menn sjá af vandræðum á evrusvæðinu núna er það að vera með evru síður en svo lausn alls og getur jafnvel verið orsök vanda.

Það var ánægjulegt að heyra hv. þm. Helga Hjörvar viðurkenna að það kæmi þó fram í skýrslunni að það væri óráð að taka upp evru í dag. Ef það tækist að leysa skuldavanda Evrópu gæti evran samt verið góður kostur. Já, það þarf ekki meira en það til að evran verði góður kostur fyrir Íslendinga, að leysa allan skuldavanda Evrópu. Hvað ef það tekst að losa um skuldavanda Íslendinga og okkur tekst að hafa hér sæmilega peningamálastefnu, getur þá ekki líka verið að krónan sé góður valkostur? Jú, það má líka lesa út úr skýrslu Seðlabankans.