141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

valkostir Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum.

[11:44]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Eins og aðrir hv. þingmenn þakka ég fyrir þá umræðu sem hér fer fram um þetta mikilvæga mál og framlag Seðlabankans. Ég vil þó segja eitt strax í upphafi, menn skyldu gjalda varhuga við því að taka allt sem heilagan sannleika eða hinn endanlega dóm sem kemur úr Seðlabankanum. Seðlabankanum getur skjátlast eins og öðrum. Þetta rit er þó gott framlag í umræðuna sem síðan þarf að fara fram innan þessara veggja um það hvaða valkostir það eru sem við stöndum frammi fyrir og hvernig við getum síðan best valið þar á milli.

Ég vil segja það um krónuna og stöðu hennar að það má færa fyrir því rök að það séu sveiflur í hagkerfinu sem eiga rót sína að rekja til þess að við erum með sjálfstæða mynt. Það má þó líka færa fyrir því rök, þung rök og reynslurök, að hagstjórnarmistök í gegnum tíðina, þ.e. hvernig við höfum staðið að hagstjórninni, hafa mikið um það að segja hvernig sveiflurnar hafa verið í íslensku efnahagslífi, hvort sem um er að ræða kjarasamninga, ríkisfjármál eða aðrar ákvarðanir sem hafa haft veruleg áhrif á stöðu efnahagslífsins og framgang þess. Slíkar ákvarðanir vega þungt þegar kemur að því hvort okkur takist að varðveita stöðugleika og byggja upp samfélag sem tryggir þegnunum hagvöxt og vaxandi kaupmátt.

Það hafa verið lagðar fram hugmyndir, virðulegi forseti, m.a. hjá hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni um ríkisfjármálareglur, hvernig við getum betur hnýtt saman ríkisfjármálin og stjórn peningamálanna innan veggja Seðlabankans. Það er vaxandi skilningur á því að til þess að við náum árangri með krónuna þurfum við að breyta hagstjórn okkar og auka allan aga. Ég held að sá skilningur sé ekki einskorðaður við einstaka stjórnmálaflokka, þetta er vaxandi skilningur í öllum stjórnmálaflokkum og hjá aðilum vinnumarkaðarins. Það er mikilvægt að nýta það.

Það er ekki þannig að öll okkar vandamál verði leyst með evru og það er heldur ekki þannig að öll okkar vandamál verði leyst með krónu. En (Forseti hringir.) við höfum miklu meira vald hvað varðar krónuna. Við getum gert vel, við getum gert betur og það er ástæða til að vera bjartsýn fyrir hönd íslensku myntarinnar.