141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

valkostir Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum.

[11:46]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Það er sannarlega rétt sem hv. þm. Illugi Gunnarsson sagði, það er ástæða til að vera bjartsýn á Íslandi í dag.

Skýrsla Seðlabankans um valkosti í gjaldmiðils- og gengismálum verðskuldar ítarlega skoðun og umræður, reyndar miklu dýpri en hér gefst kostur á. Sú niðurstaða skýrslunnar sem einblínt hefur verið hvað mest á er þó auðlesin. Ef — og aftur ef ákveðið verður að taka upp annan gjaldmiðil en íslenska krónu er það mat Seðlabankans að hagfelldast sé að taka upp evru með aðild að evrópska myntkerfinu, enda verður ekki fram hjá því litið að evrusvæðið er langmikilvægasta viðskiptasvæði okkar hvað varðar vöru, þjónustu og skuldir. Einhliða upptaka annars gjaldmiðils, eins og oft hefur verið stungið upp á í þessum sal, er afgreidd út af borðinu sem of áhættumikil en sagt að yrði evran ekki fyrir valinu virðist danska krónan vænlegust norrænu gjaldmiðlanna vegna beinnar tengingar við evruna.

Frú forseti. Í skýrslunni kemur fram að þótt ávinningur af upptöku evru væri aukin milliríkjaviðskipti og fleira sem hér hefur ítarlega verið rakið þá sé Ísland enn í hópi Evrópuríkja sem minnstan ábata hefðu af aðild að myntbandalaginu og séu þar í hópi með Bretum, Norðmönnum og ríkjum sem eiga í miklum efnahagserfiðleikum á evrusvæðinu.

Frú forseti. Menn mega ekki líta til evrunnar eins og lausnara í trúarbrögðum. Það er ekkert „quick fix“ til í gjaldeyrismálum okkar. Það dugir ekki að halda að hér verði sjálfkrafa stöðugleiki, hærri kaupmáttur, lægri vextir, lægra vöruverð og heldur ekki að agi í ríkisfjármálum detti af himni ofan daginn sem evra yrði tekin upp. Það skiptir mestu máli hvernig tekst að bæta ramma um hagstjórn og fjármálakerfi annars vegar á Íslandi og hins vegar á evrusvæðinu. Ég vil leggja áherslu á þær breytingar sem blasa við og við þurfum að horfa til, ekki síst í viðræðum við Evrópusambandið, um skipulag (Forseti hringir.) fjármálakerfisins, viðmið í peningamálastefnu og innstæðutryggingum. Við skulum flýta okkur hægt, gjaldmiðilskostirnir hlaupa ekki frá okkur. Það er rétt, (Forseti hringir.) það er ástæða til að vera bjartsýn á Íslandi í dag.