141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

valkostir Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum.

[11:49]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég sakna þess reyndar að Seðlabankinn skuli ekki hafa skoðað betur þann möguleika sem felst í tvíhliða upptöku annars gjaldmiðils. Að því leytinu til er þessi umfjöllun ekki tæmandi en hún veitir ágætisinnsýn í afstöðu Seðlabanka Íslands til eigin gjaldmiðils og eins afstöðu ríkisstjórnarinnar eða að minnsta kosti hluta hennar til eigin gjaldmiðils.

Menn líta fram hjá nokkrum tiltölulega veigamiklum atriðum eins og þeim árangri sem ríkisstjórnin hefur verið að státa sig af er varðar atvinnuleysi samanborið við Evrópulönd og hagvöxt samanborið við Evrópulönd. Hvort tveggja er til komið vegna þess að Ísland er með krónu en Evrópusambandið, eða evrulöndin, með evru. Sú tenging er augljós og ég held varla að mestu evrusinnar reyni að neita því.

Hins vegar vonast menn til að í framtíðinni muni Evrópusambandið leysa sín mál og ná væntanlega árangri í því sem er yfirlýst stefna ESB að ná frekar saman í eitt ríki og geta þannig haft stjórn á einum og sama gjaldmiðlinum. En hvernig ætla menn að leysa þessa evrukrísu? Það er farið að koma smátt og smátt betur í ljós. Evrópski seðlabankinn er búinn að lýsa því yfir að hann ætli að kaupa eins mikið og þarf af skuldum verst settu ríkjanna. Ekki nóg með það heldur ætli hann að taka nánast hvaða tryggingar sem er hjá illa stöddum bönkum í Evrópu. Hvað hafa menn kallað þetta hér á landi? Er það ekki markaðsmisnotkun að halda uppi óeðlilegu verði skuldabréfa eða hlutabréfa? Hvað finnst mönnum um það, sem hafa talað mikið um það sem þeir kalla gjaldþrot Seðlabanka Íslands, að Seðlabanki Evrópu skuli nú hafa gert það að stefnu sinni að taka við nánast hvaða veðum sem er frá illa stöddum bönkum? Vilja Íslendingar taka þátt í að fjármagna það?