141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

sjúkratryggingar og lyfjalög.

145. mál
[11:58]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 45/2012, um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, og lyfjalögum, nr. 93/1994, sem Alþingi samþykkti þann 1. júní sl. og taka eiga gildi þann 1. október nk.

Með þessu frumvarpi er lagt til að gildistöku laganna er varða greiðsluþátttöku lyfja og starfrækslu á miðlægum lyfjagreiðslugrunni verði frestað til 1. janúar 2013. Ekki er gert ráð fyrir að gildistöku annarra ákvæða laganna verði frestað og munu því ákvæði um breyttan tilgang lyfjagagnagrunns, embættis landlæknis og niðurfellingu á heimild til töku komugjalds á sjúkrahúsum taka gildi 1. október nk. eins og lögin gera ráð fyrir.

Í umræðu þingsins um frumvarpið í fyrravor komu fram áhyggjur af því að innleiðingartími laganna, og þá sérstaklega sá þáttur sem snýr að nýju greiðsluþátttökukerfi lyfja, yrði of skammur. Niðurstaða þeirrar umræðu var að meta þyrfti nú í september hvort nauðsynlegt væri að seinka gildistöku laganna. Um leið og lögin voru samþykkt hófst vinna innan ráðuneytisins við að undirbúa innleiðingu hins nýja greiðsluþátttökukerfis og var stýrihópur settur á laggirnar til að fylgja málinu eftir. Í hópnum eru fulltrúar frá embætti landlæknis, lyfjagreiðslunefnd, Lyfjastofnun, Sjúkratryggingum Íslands og velferðarráðuneytinu. Verkáætlanir hafa verið unnar af viðkomandi stofnunum og vinnuhópum á þeirra vegum.

Hér er um mjög viðamiklar breytingar að ræða með aðkomu margra aðila. Þörf er fyrir mikla forritunarvinnu í tölvukerfum apóteka og hjá Sjúkratryggingum Íslands auk þess sem búa þarf til nýjan greiðslugagnagrunn hjá Sjúkratryggingum. Enn fremur þarf að samþætta tölvukerfi apótekara, Sjúkratrygginga Íslands, embættis landlæknis og lyfjagreiðslunefndar.

Hjá Sjúkratryggingum starfa nú sex vinnuhópar að undirbúningi ákveðinna verkþátta málsins. Greiningar- og hönnunarvinna vegna tölvukerfis Sjúkratrygginga sem tengjast nýja lyfjagreiðsluþátttökukerfinu er í fullum gangi. Fyrir liggur að þær tæknilegu breytingar sem gera þarf á tölvukerfum vegna innleiðingar nýs greiðsluþátttökukerfis verða ekki tilbúnar á tilskildum tíma og því er nauðsynlegt að fresta gildistökunni til 1. janúar.

Í greinargerð með því frumvarpi sem varð að lögum þann 1. júní sl. kemur fram að kostnaðarhlutfall vegna lyfja milli sjúklinga og hins opinbera helst óbreytt á milli ára. Nýju greiðsluþátttökukerfi lyfja er ekki ætlað að spara heldur er því ætlað að koma betur til móts við þá sem eru veikastir og þurfa mest á lyfjum að halda, auk þess sem því er ætlað að auka jöfnuð milli sjúklinga. Frestun á innleiðingu nýs greiðsluþátttökukerfis mun því ekki hafa neinn kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð.

Ég legg til að þetta mál verði sent til hv. velferðarnefndar til afgreiðslu og 2. umr.