141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

sjúkratryggingar og lyfjalög.

145. mál
[12:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar til að spyrja hæstv. velferðarráðherra hvað hafi komið í ljós við frekari vinnslu málsins sem hefur tafið það svona. Það er nokkuð langt síðan frumvarpið sem varð að lögum í júní var lagt fram þannig að ráðuneytið hefur haft góðan tíma til að undirbúa þetta. Það sem ég vildi spyrja líka er hvort þá sé öruggt að greiðsluþátttökukerfið nái fram fyrir 1. janúar.

Þegar kerfið tekur til starfa fær eiginlega enginn greitt frá Sjúkratryggingum fyrsta kastið vegna þess að menn þurfa að safna upp í 12 mánaða bið. Ég spyr aftur þeirrar spurningar sem ég spurði í vor: Hvaða áhrif hefur það á ríkissjóð og hvaða áhrif hefur það á sjúklingana? Hafa verið gerðar einhverjar bráðabirgðaráðstafanir til að mæta því ef fólk sem hefur staðið í miklum kostnaði reglulega alla daga og fengið niðurgreiðslu, sérstaklega það fólk sem er mikið veikt og þarf mikið af lyfjum, lendir í því í janúar og fram í febrúar að borga lyfin sín að fullu? Hvernig ætla menn að ráða við það?

Hefur ráðuneytið ekki hugað að því að bæta öllum öðrum kostnaði heilbrigðiskerfisins inn í þetta kerfi eins og stefnt var að í annarri vinnu? Fólk sem hefur verið greiðslufrítt, krabbameinssjúklingar og aðrir, með lyf þarf allt í einu að fara að borga en borgar heilmikinn kostnað annars staðar fyrir skoðanir, myndatökur og því um líkt.