141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

sjúkratryggingar og lyfjalög.

145. mál
[12:07]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég tel eðlilegt að fallast á beiðni hæstv. velferðarráðherra og Sjúkratrygginga Íslands um þriggja mánaða frestun á gildistöku þeirra ákvæða þessara laga sem til Sjúkratrygginga heyra. Enda þótt málið hafi verið í undirbúningi í meira en tvö ár hefur komið fram hjá hæstv. ráðherra að það hafi ekki verið talið eðlilegt að hefjast handa við raunverulegan undirbúning fyrr en lögin höfðu verið samþykkt.

Í því sambandi vek ég athygli á því að þetta mál kom síðast fram í október 2011 og það var fyrirhuguð gildistaka 1. janúar 2012. Þegar frumvarpið var lagt fram fyrir tæpu ári var ekki reiknað með lengri undirbúningstíma og aldrei undan því kvartað fyrr en komið var að lokaafgreiðslu málsins í vor. Eins og hæstv. ráðherra nefndi kom fram að menn hjá Sjúkratryggingum töldu að þetta væri lítill tími allt í einu.

Gott og vel. Í þessu nýja kerfi lyfjaendurgreiðslu felst mikilvæg réttarbót og jöfnuður á margan hátt. Þess vegna er mjög mikilvægt að vel sé vandað til undirbúningsins og að Sjúkratryggingar fái tækifæri til að gera það.

Ég tel líka mikilvægt að önnur ákvæði í þessum lögum taki gildi á tilsettum tíma. Sérstaklega er mér umhugað um að ákvæðið um spítalaskattinn illræmda sem sett var í lög haustið 2007 verði úr gildi fellt þannig að það þurfi sjálfstæða ákvörðun í Alþingi til þess að taka upp slíka skattheimtu. Mér finnst brýnt að það ákvæði taki gildi og ekki síður tel ég mjög mikilvægt að strax um næstu mánaðamót fái bæði sjúklingar og læknar þeirra aðgang að lyfjagagnagrunni landlæknis. Það er gott til þess að vita að landlæknisembættið hefur notað tímann vel og náð að undirbúa breytingar á tölvukerfum sínum og öðru þannig að ákvæði um aðgang að þeim lyfjagagnagrunni geti hnökralaust tekið gildi um næstu mánaðamót. Þetta þýðir til að mynda að heimilislæknar geta fengið upplýsingar allt að þrjú ár aftur í tímann um það hvaða lyf menn hafa fengið hjá öðrum læknum sem getur skipt sköpum fyrir þá við ávísun lyfja og ekki síður, eins og ég sagði áðan, að sjúklingur getur haft aðgang að eigin upplýsingum í lyfjagagnagrunninum. Landlæknir mun setja verklagsreglur um hvernig að þessu verður staðið.

Þetta mál var eitt meginmála hv. velferðarnefndar á síðasta vetri. Það var unnið þar vel og vandlega og þó að ég eigi ekki lengur sæti í þeirri nefnd á ég ekki von á öðru en að nefndarmenn þar þekki málið vel svo það megi fara þar í gegn fyrir tilskilinn tíma.

Vegna orða hv. þm. Péturs Blöndals áðan um aðlögun að kerfinu var það skoðað ítarlega. Niðurstaðan varð sú að það væri mjög mikilvægt að hafa skýr skil. Hins vegar hefur ráðuneytið haft til athugunar hvernig hægt væri í samvinnu við apótekara að bregðast við því höggi sem hv. þingmaður nefndi að gæti skollið á þeim sem greiða fyrir lyfin, annars vegar að hámarki 44 þús. kr. á ári og hins vegar 66 þús. kr. á ári. Ég treysti ráðuneytinu og lyfjabúðunum til að útfæra það vel og eins þarf að breyta tilteknum reglugerðum um stuðning við einstaklinga vegna hás lyfjakostnaðar sem einnig hefur verið í undirbúningi í ráðuneytinu eftir því sem ég best veit.

Ég lýsi sem sagt eindregnum stuðningi við þetta frumvarp, frú forseti, og vona að það fari í gegn fyrir tilsettan tíma.