141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

frádráttur á tekjuskatti vegna afborgana af fasteignalánum einstaklinga.

4. mál
[13:49]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágætar spurningar. Hv. þm. Lilja Mósesdóttir hefur að sjálfsögðu látið sig þessi mál miklu varða alveg frá því að hún settist á þing og því er ég feginn að hún skuli áfram taka þátt í umræðunni.

Ábendingarnar eru margar hverjar réttmætar. Auðvitað nægir þetta ekki fyrir alla. En hvað varðar spurninguna um hvort þetta gagnist fáum og ekki nógu mikið er því annars vegar til að svara að þetta gagnast mjög mörgum, þetta gagnast raunar öllum sem eru með verðtryggð fasteignalán. Það er svo annað mál hvort þetta gagnast nógu mikið og það er alveg ljóst að þetta er ekki nóg í öllum tilvikum, áfram mun þurfa aðrar leiðir.

Reyndar hafði ég ekki tíma til að geta þess í ræðu minni að við teljum eðlilegt að þegar ráðist er í svona aðgerðir þar sem ríkið er í rauninni að hjálpa fólki að greiða af fasteignalánum sínum og þar með að gera stöðu bankanna eða annarra lánveitenda betri, að bankarnir komi þá til móts við þá sem skulda til viðbótar við þetta vegna þessarar aðstoðar frá ríkinu og geri það til að mynda með því að færa lánin niður í 100% af fasteignamati, þ.e. að 110%-leiðin svokallaða, sem var raunar alltaf furðuleg nálgun, verði gerð að 100% leið.

Það mun heldur ekki duga til að leysa vanda allra þannig að til þess að svara öllum spurningum hv. þingmanns í einu þá er þetta innlegg í umræðuna, ein leið, en hún leysir ekki öll málin og felur ekki í sér að horfið sé frá öðrum leiðum.