141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

frádráttur á tekjuskatti vegna afborgana af fasteignalánum einstaklinga.

4. mál
[13:54]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Það gleður mig að við fáum nýja hugmynd í púkkið á þessu risastóra vandamáli sem heldur öllu í járngreipum. Mér finnst jákvætt að hér sé gert ráð fyrir ákveðnu jafnræði en vandinn er að þetta er ójafn heimur sem við búum í og fólk hefur mjög mismikla greiðslugetu. Það hefur áður notið ólíkra úrræða eða notið góðs af dómum sem fallið hafa, til dæmis um gengislán. Svo eru enn aðrir sem tekið hafa gengistryggð lán og ekki notið góðs af dómum. Spurning mín er því þessi: Þarf ekki að jafna stöðuna svolítið fyrst?

Ég velti líka fyrir mér hvort ekki sé einfaldara að afnema verðtrygginguna. Fólk borgar ef til vill 100 þúsund kall og lánið hækkar um 100 þúsund kall af því að það er verðtryggt. Er það ekki óbein niðurgreiðsla eða ríkisstyrkur til bankanna með því að halda verðtryggingunni þannig að í raun og veru greiði ríkið bönkunum verðtrygginguna og þeir halda áfram að græða 200 milljarða á næstu árum?