141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

frádráttur á tekjuskatti vegna afborgana af fasteignalánum einstaklinga.

4. mál
[13:59]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til að þakka hv. þingmanni og flokki hans fyrir frumkvæði í tillögugerð í skuldamálum heimilanna, enda er það brýnt úrlausnarefni á þinginu. Það er líka sérstök ástæða til að þakka fyrir hlý orð og hrós hv. þingmanns til ríkisstjórnarinnar fyrir ýmsar aðgerðir eins og í atvinnusköpun, um endurgreiðslu bæði í tengslum við kvikmyndagerð og í tengslum við viðhald og aðra slíka hluti sem gefið hafa góða raun, skapað hér umsvif og umtalsverðar tekjur.

Það er þó erfitt að jafna saman ávinningi ríkissjóðs af því við þær tillögur sem hér eru því að þær aðgerðir skapa miklar óbeinar skatttekjur, meðal annars virðisaukaskatt í ríkissjóð, sem ella hefðu ekki orðið til ef um svarta atvinnustarfsemi hefði verið að ræða, ef ekki hefði verið gripið til þessara úrræða. Þess vegna er nauðsynlegt að spyrja hv. þingmann nánar út í þann kostnað sem í tillögunum felst.

Í fyrsta lagi: Hvað áætlar hv. þingmaður að heildarkostnaður við þessar aðgerðir gæti orðið fyrir ríkissjóð áður en það sem kemur á móti kemur til frádráttar?

Í öðru lagi: Á þetta að ná til allra? Þá hlýtur maður að spyrja: Er um að ræða 150 þús. kr. fyrir hvern einstakling sem í hlut á, eins og var í hlutabréfaafslættinum, eða er um að ræða 500 þúsund eða 1 milljón, 2 milljónir eða 5 milljónir? Hvaða stærðargráðu af stuðningi sér hv. þingmaður fyrir sér?

Í þriðja lagi: Hvaða tekjur kæmu á móti þessum útgjöldum? Hve stórt hlutfall þeirra kæmi til baka í ríkissjóð? Á hvaða rannsóknum og athugunum byggja þær áætlanir?