141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

frádráttur á tekjuskatti vegna afborgana af fasteignalánum einstaklinga.

4. mál
[14:42]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er komin í ræðustól til að taka undir nauðsyn þess að þingið sýni samstöðu og vindi sér í það verkefni að finna varanlega lausn á skuldavanda heimilanna. Því miður var ekki leitað lausna þegar við komum saman í apríl 2009. Það var reynt að gera sem minnst úr skuldavanda heimilanna og talað um að þau úrræði sem þá var búið að innleiða, m.a. frysting lána og afborgana og greiðsluaðlögun, ættu að duga. En það var alveg ljóst að skuldavandi heimilanna var miklu víðtækari en ríkisstjórnarmeirihlutinn taldi.

Ég er þeirrar skoðunar, frú forseti, að ef við hefðum farið hægar í niðurskurðinn 2009 og 2010 og innleitt 20% leiðréttingu lána stæðum við ekki í þeim sporum í dag að fjölda starfandi á vinnumarkaði hefði ekkert fjölgað frá hruni. Reyndar hefur þeim fækkað. Það er bein afleiðing af rangri efnahagsstefnu. Ástæðan fyrir því að farið var út í ranga efnahagsstefnu var ekki sú að enginn vissi betur. Nei. Framsóknarflokkurinn benti meðal annars á leið sem við hefðum átt að fara. Ég reyndi sem þingmaður í stjórnarmeirihlutanum að benda á að við þyrftum að fara mun hægar í niðurskurðinn til að eyðileggja ekki störf og fyrirtæki varanlega eins og þessar tölur um fjölda starfandi á vinnumarkaði sýna. Starfandi fólki á vinnumarkaði (Forseti hringir.) hefur nefnilega fækkað eftir hrun.