141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

almenn niðurfærsla á verðtryggðum fasteignaveðlánum heimila og afnám verðtryggingar.

5. mál
[15:04]
Horfa

Flm. (Margrét Tryggvadóttir) (Hr) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið og hlý orð í okkar garð og tillögunnar. Við höfum rætt skuldatryggingarálagið við ýmsa. Mönnum ber ekki alveg saman og þetta er eitt af þeim atriðum sem þarf að skoða mjög vel. Persónulega er ég líka frekar skotin í hugmyndinni um að hafa sjóðinn í Seðlabankanum. Það er ef til vill útfærsluatriði með hvaða hætti best er að fara í niðurfærslu.

Við leggjum til þessa leið og nú fer málið til nefndar. Ég vona svo sannarlega að þetta verði skoðað almennilega, fái umfjöllun, og ekki bara þessi leið heldur allar leiðir. Við erum ekki að leggja þetta fram til að segja að þetta sé eina rétta leiðin. Ég held hins vegar að þetta sé gerleg leið. Ef menn vilja fara í leiðréttingu er hægt að gera það svoleiðis. Það eru aðrar leiðir, en það hlýtur að vera verkefni okkar í þinginu að finna bestu leiðina.