141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

almenn niðurfærsla á verðtryggðum fasteignaveðlánum heimila og afnám verðtryggingar.

5. mál
[15:23]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því hversu jákvæðir þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru þegar kemur að því að finna og tala fyrir leiðum til að taka á skuldavandanum. Ég kom hingað upp til að segja hv. þingmanni frá því að nú þegar hefur verið skipuð nefnd eins og hann lagði til í ræðu sinni. Það var gert í þáverandi efnahags- og skattanefnd sem ég sat í. Reyndar var ekki skipuð sérstök nefnd heldur fór efnahags- og skattanefnd sérstaklega í að skoða allar tillögur í formi frumvarpa og þingsályktunartillagna varðandi lausnir á skuldavanda heimilanna. Ég tók þátt í því verkefni. Við fengum sérfræðinga til að segja álit sitt á þessum tillögum og við ræddum þetta okkar á milli en ekkert gerðist vegna þess að stjórnarmeirihlutinn vill ekki gera neitt.

Það er ein ástæðan fyrir því að ég fór út úr stjórnarmeirihlutanum á sínum tíma að hann er ekki tilbúinn að fara í aðgerð sem tekur á skuldavandanum. Ég er þeirrar skoðunar að ekkert verði gert fyrr en við höfum kosningar. Þá fáum við vonandi ferskt blóð og nýja flokka inn á þing.