141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

almenn niðurfærsla á verðtryggðum fasteignaveðlánum heimila og afnám verðtryggingar.

5. mál
[15:29]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég deili þeirri skoðun hv. þingmanns hvað það varðar að því fólki sem er skynsamlegast í vinnubrögðum hlýtur að ganga best í kosningum og prófkjörum og því sem er fram undan. Það blasir við að þau vinnubrögð sem hv. þingmenn temja sér í þessu máli sem og öðrum vega þungt, að þeir reyni að leysa málin í stað þess að skjóta andstæðinginn í kaf með froðufrösum. Ég held að þjóðin muni frekar standa við bakið á þeim fulltrúum sem temja sér skynsamleg vinnubrögð og orðbragð.

Eins og hv. þingmaður veit þá er ég ekki í neinni samkeppni af því að ég hef þegar tekið ákvörðun um að gefa ekki kost á mér aftur til setu á Alþingi. Ég hef reyndar alltaf reynt að nálgast þau verkefni sem mér hafa verið falin án þess að vera í einhverri slíkri samkeppni. Ég hef reynt að sjá frekar það jákvæða í verkefninu en það neikvæða.

Ég hef reyndar töluverða reynslu af sveitarstjórnarmálum. Þar sem ég þekki til var markmiðið að loknum kosningum, sem eru náttúrlega ekki flokkspólitískar á sveitarstjórnarstiginu á sama hátt og í landsmálunum, að það væri sameiginlegt verkefni allra bæjarfulltrúa, sveitarstjórnarfulltrúa, að vinna af heilindum fyrir samfélag sitt, koma breytingum á og vinna á þann hátt að íbúarnir og samfélagið í heild mættu sem best njóta. Það eigum við líka að gera í þinginu eins og við gerum oft í nefndarstarfinu. Það er farsælast fyrir land og þjóð og líka fyrir okkur sem vinnum á þessum stað að nálgast verkefnin þannig. Það er það sem við viljum gera og það er það sem við eigum að gera.