141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

stjórnarskipunarlög.

19. mál
[15:52]
Horfa

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Stjórnarskrá á að vera stjórnarskrá allra Íslendinga, ekki bara sumra. Ef heill stjórnmálaflokkur af þeirri stærðargráðu sem Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn eru væri eindregið á móti málinu væri það engin sátt. Ég tel að menn þurfi að vinna sig fram til sáttar þannig að það náist sá meiri hluti sem hér er talað um.

Hjá þjóðinni er svo talað um að 50% atkvæðisbærra manna skuli greiða atkvæði. Ég veit að þetta er mjög hár þröskuldur en það gildir hið sama, ég vil ekki að lítill minni hluti þjóðarinnar geti sett restinni stjórnarskrá, bæði þeim sem mæta ekki á kjörstað og þeim sem mæta á kjörstað og eru á móti. Mér finnst stjórnarskráin það mikilvæg og það á að vera svona mikil sátt um hana. En að sjálfsögðu fer málið núna til hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og ég geri ráð fyrir að hún muni fjalla um þetta, ræða þessa þröskulda og fá um málið umsagnir. Það getur vel verið að menn komist að þeirri niðurstöðu að það sé betra að hafa þröskuldana lægri en ég minni á að eftir því sem þröskuldarnir eru lægri, þeim mun sveiflukenndari verða breytingar á stjórnarskránni. Ég vil ekki búa í þjóðfélagi þar sem undirstöðunni er kippt fram og til baka, kannski á þriggja, fjögurra eða fimm ára fresti.

Ég vil búa við þann stöðugleika að stjórnarskráin, sem er undirstaða framkvæmdarvalds, dómsvalds og löggjafarvalds, sé stöðug. Í þannig þjóðfélagi vil ég búa. Ég vil líka búa í þjóðfélagi sem er fært um að ná sátt um mál þannig að það geti búið til stjórnarskrá sem er almenn sátt um.