141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

stjórnarskipunarlög.

19. mál
[16:06]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það liggur við að ég þurfi ekki að koma hingað upp til að svara þessari spurningu vegna þess að ég held að svarið hafi legið í fyrri ræðu minni þar sem ég fagnaði aðkomu þjóðarinnar að því að segja álit sitt á stjórnarskránni. Við getum haft mismunandi skoðanir á því hvort sú framsetning og þær spurningar sem þar eru til grundvallar eru nægilega skýrar. Margir spyrja mig hvað það þýði að við greiðum atkvæði um þjóðkirkjuna, hvort ákvæði um þjóðkirkjuna eigi að vera í stjórnarskrá eða ekki. Erum við með því að greiða atkvæði um að afnema þjóðkirkju hér á landi eða ekki? Það er svo sem hægt að hafa það í sérlögum. Ég hugsa að fólk leggi ólíkan skilning í það. Ég hef sagt það á þingi að ég hefði viljað skoða hvað gert var þegar málið var undirbúið og spurningarnar settar fram. Ég er ekki einn um það. Fjölmargir fræðimenn hafa gagnrýnt ýmsar spurningar og hvernig málið er sett fram og ég hefði kosið að gera það með öðrum hætti.

Ég veit að við hv. þingmaður erum hjartanlega sammála um að þjóðin á að sjálfsögðu að fá meiri aðkomu að breytingum á stjórnarskrá og við viljum sjá það í framtíðinni og það er einmitt það sem frumvarpið gengur út á.