141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

stjórnarskipunarlög.

19. mál
[16:15]
Horfa

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég þakka þessa umræðu og þeim hv. þingmönnum sem tóku þátt í henni. Reyndar voru það eingöngu flutningsmenn málsins, því miður, nema hvað hv. þm. Lúðvík Geirsson kom með ágætisinnlegg í andsvari og ég þakka honum fyrir það.

Mér heyrist, a.m.k. á ræðu hv. þm. Lúðvíks Geirssonar, að ágreiningurinn gæti verið þröskuldarnir. Mér finnst alveg sjálfsagt að ræða það hvort þröskuldarnir skuli vera svona háir eða lágir. Ég bendi á að eftir því sem þröskuldarnir eru lægri þeim mun meiri sveiflur munum við hafa og óróa í stjórnarskránni, óvissu o.s.frv. Breyting á stjórnarskrá, eins og ég gat um, ein kommusetning getur breytt meiningu í einni grein, t.d. varðandi öryrkja. Og ef gerð er ein lítil breyting eru allir hæstaréttardómar ógildir og dæma þarf upp á nýtt. Ég nefni þetta vegna þess hve mikil óvissa getur verið fólgin í því að gera breytingar á stjórnarskránni reglulega. Þess vegna hef ég lagt áherslu á það að þröskuldarnir séu háir og menn reyni heldur að vinna saman að því að finna sameiginlegan samnefnara og eins og ég gat um er mín reynsla af starfi í nefndum þingsins sú að yfirleitt er hægt að ná fram góðu samstarfi, menn slaka á þessari eða hinni skoðuninni, taka aðra fram yfir o.s.frv. og reyna að finna bestu lausn.

Ég man til dæmis eftir því í félagsmálanefnd að þar var mjög gott samstarf. Það vill nú svo skemmtilega til að hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir leiddi þar mjög góða vinnu, virkilega góða vinnu í samstarfi allra flokka við að gera breytingar á frumvörpum og öðru slíku. Þetta er alveg hægt og það er alveg hægt að ná fram samstöðu bæði í þingnefndum og á þingi, sérstaklega þegar um er að ræða veigamiklar breytingar.

Ég er líka hlynntur því, eins og margir, að þjóðin komi oftar að ákvörðunartöku, oftar, en ekki alltaf. Vegna þess að fólk getur ekki verið að sinna því alla daga, því starfi sem við sinnum hér á Alþingi, það þarf líka að vinna. En í veigamiklum málum finnst mér að þjóðin þurfi að koma að og eitt af veigamestu málum fyrir þjóðina er einmitt stjórnarskráin. Þess vegna finnst mér að þjóðin og kjósendur eigi að koma að breytingu á stjórnarskrá með virkum hætti þannig að ákvörðun þeirra sé bindandi og verði að stjórnarskrá, stjórnarskrá þjóðarinnar.