141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

samningsveð.

23. mál
[16:51]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég ætla svo sem ekki að halda langa ræðu. Þetta er þriðja málið um skuldir heimilanna sem er á dagskrá í dag, salurinn nánast tómur. Gaman að því eða þannig. Ég vil þó beina til nefndarinnar sem fær þetta mál til skoðunar, ef einhverjir nefndarmenn skyldu vera á skrifstofunum sínum að horfa á þessar umræður, að skoða það vel í samhengi við önnur mál og hugsanlegar lausnir á skuldum heimilanna. Það sem hér er lagt til getur verið lausn og getur styrkt samningsstöðu fólks en fleira þarf til. Það getur verið lausn fyrir einhverja en við eigum að reyna að koma til móts við sem flesta og skoða allar mögulegar lausnir.

Því fagna ég því að málið sé komið eina ferðina enn inn í þingið. Það er mjög vel kynnt, það þekkja það margir. Mikið hefur verið kallað eftir því í samfélaginu að fá þetta úrræði. Það er þekkt frá öðrum löndum og menn vita hvernig það hefur gengið þar. Það hefur orðið til þess að fólk hefur getað gengið frá eignum sínum og verið laust mála og byrjað upp á nýtt annars staðar eða á sama stað en með öðrum hætti. Það veltir líka ábyrgðinni af lánveitingunni að hluta til á þann sem veitti lánið. Það er gott því að við getum ekki haft það þannig í þjóðfélaginu að lánveitandinn sé alltaf með belti og axlabönd og sá sem tekur lánið sé alltaf í rússneskri rúllettu.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um málið en vona bara að það verði skoðað vel í eitt skiptið enn og jafnvel samþykkt.