141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[17:12]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Skúla Helgasyni fyrir þá tillögu sem hann hefur gert grein fyrir og er flutt öðru sinni, hygg ég, og hefði betur fengið afgreiðslu á síðasta þingi. Það er löngu tímabært að farið verði í þá rannsókn sem hér er lögð til, jafnlangt og liðið er síðan þessi einkavæðing fór fram. Auðvitað hefur hún hlotið nokkra rannsókn í þinginu, m.a. á fyrsta kjörtímabili mínu, árin 2003–2007, fyrir forgöngu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar heitins, þáverandi varaformanns fjárlaganefndar, og okkar annarra meðnefndarmanna hans þar sem við fengum Ríkisendurskoðun til að fara í gegnum þessi mál á þeim tíma og fengum fram margvíslegar upplýsingar sem sannarlega voru mér, nýjum á þessum vettvangi þá, mikið áhyggjuefni.

Þau flokkspólitísku hrossakaup Framsóknar og Sjálfstæðisflokks sem voru allsráðandi við einkavæðingu á Landsbankanum og Búnaðarbankanum og helmingaskipti flokkanna á þeim hagsmunum sem þar voru voru með miklum ólíkindum. Þau afhjúpuðu alvarlega spillingu og eru ein af stærstu orsökum þess mikla ófarnaðar sem í kjölfarið fylgdi. Það sem með þessum hætti var afhent, með þeim hætti sem það var afhent, var notað með sama hætti, eða misnotað, til að skuldsetja þetta samfélag af sama ábyrgðarleysi og sömu skammsýni og einkenndi einkavæðinguna á undraskömmum tíma þannig að það endaði með þjóðargjaldþroti. Það er löngu tímabært að vendilega verði farið yfir þetta, ekki til að refsa einhverjum tilteknum einstaklingum, þar tek ég undir með hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur, heldur til að festa það rækilega niður fyrir okkur núna og fyrir alla framtíð hvert það getur leitt okkur þegar ekki er gætt að vinnubrögðum á þinginu og þegar samþjöppun valds og pólitísk hrossakaup verða allsráðandi um mikilvægustu ráðstafanir í málefnum ríkisins. Það er saga sem við höfum fengið að reyna afleiðingarnar af og það er skylda okkar sem höfum fengið að reyna þær afleiðingar að draga það mjög skýrt fram fyrir okkur sjálfum og fyrir komandi kynslóðum hvað það var og hvernig það gerðist að svo illa var á málum haldið sem raun bar vitni. Þar valda ekki síst þau vinnubrögð sem viðhöfð voru við einkavæðingu þeirra banka sem í kjölfarið settu þessa þjóð á hausinn.