141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[17:27]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið ef svo skyldi kalla. Það var ekki verið að fjalla efnislega um málið sjálft sem við erum að tala um hér. Ég reiði mig á stuðning hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar við að drífa þetta mál af og þá helst í næstu viku. Þetta finnst mér góðar fréttir. Það verður þá væntanlega ekki fyrirstaða gegn því að þetta mál fari hratt í gegnum viðkomandi nefnd þingsins það sem eftir lifir þessarar viku og þeirrar næstu og málið verður þá samþykkt áður en þingmenn fara að funda í kjördæmum í annarri viku. Ég skal fyrstur manna styðja þá málsmeðferð ef það er vilji til að afgreiða málið og taka þá fyrir önnur mál þó að ég líti á þetta sem eitt af alvörumálum og reikna með að þingmaðurinn geri það sömuleiðis.

Þetta er risastórt mál. Þetta skiptir ekki bara máli vegna efnahagshrunsins og falls íslensku bankanna haustið 2008. Þetta skiptir líka máli í sögu þjóðarinnar, hvernig farið var með ríkiseigur og hvernig farið var með fjármuni. Það skiptir gríðarlegu máli í pólitískri sögu þjóðarinnar hvernig stjórnmálamenn og í þessu tilfelli líka forustumenn tveggja stjórnmálaflokka höndluðu með eigur ríkisins og þjóðarinnar og fóru illa með þær með alvarlegum afleiðingum fyrir þjóðina, sem munu vara í langan tíma enn.

Ég heiti á hv. þm. Tryggva Þór Herbertsson og aðra þá sem vilja leggja þessu máli lið að við drífum málið af og komum þessari rannsókn af stað sem allra fyrst.