141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[17:32]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður gerir fulllítið úr sjálfum sér og félögum sínum með því að segja að hann skipti ekki máli í þessu samhengi því að víst gerir hv. þingmaður það og stjórnarandstaðan öll. Þetta mál fékk umfjöllun í nefnd á síðasta þingi og var afgreitt úr nefndinni, kom til þingsins og var stoppað af stjórnarandstöðunni. Komið var í veg fyrir það síðastliðið vor í samningum um lok síðasta þings að þetta mál fengi afgreiðslu. Það var forgangsmál hjá hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur, þáverandi þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins, í umboði flokksins að koma í veg fyrir að þetta mál kæmist til atkvæðagreiðslu, (Gripið fram í.) því miður. Þess vegna var það samið út af borðinu að kröfu stjórnarandstöðunnar. Afstaða stjórnarandstöðunnar er breytt, ég heyri það. Stjórnarandstaðan mun styðja að þetta mál fái afgreiðslu, helst í næstu viku. Ég endurtek að ég heiti á hv. þm. Tryggva Þór Herbertsson og stjórnarandstöðuþingmenn alla að sjá til þess að svo verði. Umfjöllun um málið er lokið, nefndarálit liggur fyrir og það er ekkert að vanbúnaði að afgreiða málið úr nefnd strax í næstu viku og ljúka því í þingsal eigi síðar en föstudag. Þá verður málið afgreitt.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefnir hér í dag og reyndar annar þingmaður Sjálfstæðisflokksins líka um hina síðari einkavæðingu og hvort eigi þá ekki að jafna vægið í pólitíkinni og fara í rannsókn á hinni síðari einkavæðingu. Sjálfur geri ég talsverðan greinarmun á því að færa flokksfélögum ríkiseigur eins og gert var árið 2002, þ.e. bankana, og því að þurfa að greiða úr þrotabúum. Þar er ólíku saman að jafna að færa einkavinum sínum eignir og svo það sem við höfum verið að gera, að (Forseti hringir.) greiða úr flækjunni og leysa (Forseti hringir.) úr þrotabúinu. Það er ekki einkavæðing.