141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[17:43]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Við ræðum hér gamlan kunningja, tillögu til þingsályktunar um rannsókn á einkavæðingu bankanna. Ég held að þessi tillaga sé að mestu óbreytt frá því í fyrra. Þegar hún var fyrst lögð fram var ekki lagt til að einkavæðing á Fjárfestingarbanka atvinnulífsins yrði rannsökuð. Mér finnst mjög gott að það skuli hafa verið haft með. Tillagan hefur því batnað. Nú held ég að það sé komið nóg að flytja þessa tillögu.

Við fengum þetta mál til umfjöllunar á síðasta þingi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Nefndin afgreiddi það frá sér og þar var meiri hluti fyrir því að fara í þessa rannsókn en það var greinileg fyrirstaða í þinginu. Þetta mál var stoppað. Hér var fullyrt áðan að það hefði verið stoppað af stjórnarandstöðu, svo ég vitni í orð hv. þm. Björns Vals Gíslasonar, þingflokksformanns Vinstri grænna. Svo vill til að ég barðist mjög mikið fyrir því að málið yrði klárað. Ég er varaþingflokksformaður og veit því að það var fyrirstaða en sú fyrirstaða var ekki bara hjá stjórnarandstöðunni. Ég vil meina að ef virkilega er sannfæring meiri hluta fyrir málinu eigi hann ekki að láta bjóða sér að stjórnarandstaðan stoppi það með þessum hætti.

Það var mjög sérstakt ástand í vor í þinginu og ótal mál sem ekki náðu í gegn. Það var mikil pressa á að klára og ljúka þingstörfum svo að hægt væri að pússa gólfin í þessum sal fyrir einhver tildurboð sem átti að halda hér í sumar. Þetta var eitt af þeim málum sem var stoppað. En þessi rannsókn er löngu tímabær og ég veit að við í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd munum taka vel á móti þessari þingsályktunartillögu og ég mun beita mér fyrir því að hún verði afgreidd úr nefnd sem allra fyrst.