141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

sókn í atvinnumálum.

14. mál
[17:58]
Horfa

Flm. (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um sókn í atvinnumálum sem þingflokkur Framsóknarflokksins stendur að og byggir á skýrslu sem unnin var í aðdraganda flokksþings okkar framsóknarmanna á síðasta ári. Þar var skipaður starfshópur undir minni forustu sem átti samtal við nær allar atvinnugreinar í landinu. Þar kom í ljós í fáum orðum sagt að þau tækifæri sem íslenskt atvinnulíf á til framtíðar litið eru nær óþrjótandi. Við höfum öll tækifæri til að búa þannig um hnútana að atvinnuleysi ætti að vera hverfandi, mikil eftirspurn ætti að vera eftir vel menntuðu og hæfu starfsfólki sem mundi þá í framhaldinu leiða til þess að sú aukna eftirspurn mundi auka afkomu heimilanna, leiða til hækkandi launa og þar með gætu fleiri átt möguleika á því að standa undir afborgunum af skuldbindingum sínum. Tekjur ríkissjóðs og sveitarfélaganna mundu líka aukast og þannig væri í raun og veru hægt að rjúfa það kyrrstöðutímabil sem ríkt hefur í samfélaginu á undangengnum þremur árum.

Það er kannski ekki nema von að við framsóknarmenn teflum þessu máli fram númer tvö í röðinni og sem einu af forgangsmálum okkar á þessum þingvetri. Við viljum að málið fari hið fyrsta til nefndar, væntanlega til atvinnuveganefndar, þar sem það fái efnislega umfjöllun vegna þess að á undanförnum dögum hafa aðilar vinnumarkaðarins, Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands, komið ítrekað fram og bent á að því miður hafi ríkisstjórnin ekki efnt þau loforð sem hún undirgekkst og skrifaði undir með aðilum vinnumarkaðarins í aðdraganda síðustu kjarasamninga. Það er í raun og veru staðfest í dag í 17 liðum, þau atriði þar sem ríkisstjórnin hefur dregið lappirnar eða ekki uppfyllt þá samninga sem hún undirritaði við aðila vinnumarkaðarins á sínum tíma. Það er fáheyrt á seinni tíð að ríkisstjórn hafi gengið svo bókstaflega á bak orða sinna þegar kemur að grundvallarmálum eins og kjarasamningum sem eiga að viðhalda friði á vinnumarkaði að svo stórfelld brot skuli hafa átt sér stað á því samkomulagi sem ríkisstjórnin gerði við aðila vinnumarkaðarins.

Þessi þingsályktunartillaga er mikil að efni og er fjallað um hvern og einn lið í nokkuð ítarlegu máli. Á bak við þingsályktunartillöguna er skýrsla sem lögð var fyrir flokksþing framsóknarmanna á síðasta ári. Staðreyndin er sú að með því að ráðast í breytingar á skattkerfinu og til efnahagslegra aðgerða ásamt því að ráðast í nauðsynlegar vinnumarkaðsaðgerðir er hægt að skjóta miklu styrkari stoðum undir undirstöðuatvinnugreinar landsins. Ég vil taka fram áður en ég held áfram að ekki er vikið að sjávarútvegsmálum í þessum kafla. Það var gert sérstaklega á umræddu flokksþingi og undir forustu Sigurðar Inga Jóhannssonar. Í umræðum um sjávarútvegsmál kom mjög glögglega fram hver sýn framsóknarmanna er í undirstöðuatvinnuveginum sem sjávarútvegurinn er.

Svo ég renni nú yfir þingsályktunartillöguna sem er í 11 liðum. Í fyrsta lagi viljum við skipa starfshóp stjórnvalda og hagsmunaaðila. Við viljum eiga samræður við aðila vinnumarkaðarins um endurskoðun á skattumhverfi atvinnulífsins með það að markmiði að tryggja samkeppnishæfni Íslands. Við höfum einfaldlega séð það á undanförnum árum að samkeppnishæfnin hefur farið dvínandi. Það má berlega sjá í erlendri fjárfestingu hér á landi. Allar þær aðgerðir og sú leikgleði hjá ríkisstjórninni sem hefur fylgt því að umbreyta skattkerfinu gríðarlega hefur leitt ákveðinn glundroða af sér þannig að erlendir aðilar hafa sagt þegar horft er til Íslands að hér ríki pólitísk óvissa í ljósi þess hversu umfangsmiklar og örar breytingar hafa verið gerðar á skattkerfinu á undangengnum árum og þær séu ekki nægilega hvetjandi til þess að ráðist verði í alvörufjárfestingu og atvinnusköpun hér á landi. Staðreyndirnar tala sínu máli að lítil sem engin atvinnuvega- og fjárfesting er í landinu. Hún er í sögulegu lágmarki.

Það þarf jafnframt að losa um gjaldeyrishöftin og við framsóknarmenn höfum lagt mikla áherslu á það að við búum ekki þannig um hnútana að við festumst í viðjum haftanna svo áratugum skiptir. Síðustu gjaldeyrishöft áttu einungis að vara í mjög stuttan tíma en voru við lýði í ein 60 ár. Það er því meira en að segja það að vinda ofan af þeim höftum. En það er eitt af þeim forgangsverkefnum sem ég og við teljum að ekki hafi verið nægilega vel haldið á málum og ég vil meina að skoða þurfi þau mál upp á nýtt. Það þarf að ræða við erlenda kröfuhafa, krónubréfaeigendur, um það hvernig við getum á tíu til fimmtán ára tímabili samið um að þeir geti losað sig út úr hagkerfinu þannig að höftin verði ekki afnumin með þeim afleiðingum að krónan lendi í frjálsu falli.

Ráðast þarf í mjög markvissar vinnumarkaðsaðgerðir. Það þarf að koma til móts við þarfir einstaklinga sem hafa ekki fundið sig í framhalds- eða háskólanámi. Þar erum við að tala um mjög stóran hóp fólks. Íslenskt menntakerfi hefur því miður á undangengnum árum ekki verið að sinna þörfum hinna svokölluðu skapandi greina, tæknigreina. Það er mikið af ungu fólki sem ekki hefur fundið sig innan menntakerfisins sem þarf að veita úrræði og skapa tækifæri til að finna störf við hæfi og jafnvel að vera í námi samhliða starfi. Við höfum lagt til ákveðnar aðgerðir hvað þau mál snertir.

Mikil umræða er um það á Íslandi í dag að atvinnuleysi fari minnkandi. Það segja fulltrúar ríkisstjórnarinnar. Vissulega hefur atvinnulausum farið fækkandi á atvinnuleysisskrá en það er meðal annars vegna þess að starfandi fólki í landinu hefur fækkað. Fólk hefur flutt erlendis, því miður, vegna þess að það hefur einfaldlega ekki atvinnu við hæfi hér á landi. Og sveitarfélögin hafa í æ meira mæli verið að taka við fólki af atvinnuleysisskrá sem á ekki lengur rétt þar og færa það yfir á fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna. Ef það er dæmi ríkisstjórnarinnar um minnkandi atvinnuleysi í landinu vegna þess að fólk á ekki rétt til atvinnuleysisbóta í dag og hefur farið yfir á sveitarfélögin til fjárhagsaðstoðar þar, þá er það einfaldlega röng mynd af veruleikanum. Það er fólk sem reiðir sig í þó nokkrum mæli á framfærslu sveitarfélaganna í landinu en hefur að sama skapi farið út af atvinnuleysisbótum.

Við fjöllum um stoðkerfi atvinnulífsins og hvernig þurfi að endurskapa það umhverfi atvinnulífsins. Við þurfum að koma meira til móts við þarfir atvinnulífsins og auka þarf ráðgjöf til fyrirtækja í greiðsluörðugleikum og hjálpa þeim til endurreisnar.

Hvað nýsköpun varðar í IV. kafla þingsályktunartillögunnar viljum við breyta lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki þannig að stuðningur við þau verði í formi afsláttar á staðgreiðslu og rannsóknar- og þróunarkostnaði. Þetta er ört vaxandi atvinnugrein hér á landi, og er hugverkaiðnaðurinn meðal annars nátengdur þessum hluta þingsályktunartillögunnar. Því er brýnt að ráðast í aðgerðir hvað þetta varðar sem og að hreyfa við því að einstaklingar geti notið skattafsláttar vegna fjárfestinga í nýsköpunarverkefnum og sjóðum sem fjárfesta eingöngu í nýsköpunarfyrirtækjum.

Í V. kaflanum beinum við sjónum okkar að hugverkaiðnaðinum. Þar erum við að mælast til þess að fjármagn til kennslu í raun- og verkfræðigreinum í háskólum landsins verði aukið. Fram kom þegar við ræddum við aðila í hugverkaiðnaðinum, þar erum við að tala um fyrirtæki eins og CCP, Marel, Actavis og fleiri fyrirtæki, að íslenskt háskólasamfélag nær ekki að sinna þörfum þessara ört vaxandi atvinnugreina sem veita ungu vel menntuðu fólki næga atvinnu.

Einnig er brýnt að horfa til þess að þau fyrirtæki starfa á alþjóðlegum samkeppnismarkaði og var meðal annars bent á að lög um hugverkaiðnað og samkeppnisstöðu fyrirtækja í Kanada eru með mjög framsæknum hætti. Ég tel að við ættum að horfa í þá átt vegna þess að við erum í samkeppni um störf á alþjóðlegum markaði þegar kemur að þessum geira atvinnulífsins.

Við leggjum líka til framsæknar hugmyndir í kvikmyndagerð og tónlist. Ég var mjög ánægður að heyra það að þingmenn hafa lagt fram hugmyndir um að lyfta tónlistariðnaðinum og koma honum á þann sess sem kvikmyndagerðin hefur verið. Þar með er verið að taka undir þær hugmyndir sem við framsóknarmenn lögðum fram í fyrra að við viljum stuðla að eflingu kvikmyndagerðar og tónlistariðnaðar á landinu.

Í sjöunda lagi fjöllum við um ferðaþjónustu sem er ört vaxandi atvinnugrein. Maður þyrfti í raun og veru dálítið langan tíma til að fjalla um ferðaþjónustuna og öll þau tækifæri sem þar er að finna og hvernig hún hefur vaxið og blómstrað á undanförnum árum. Ég horfði í gær á áhugaverðan þátt á hinni frægu sjónvarpsstöð ÍNN þar sem formaður Framsóknarflokksins ræddi við Ernu Hauksdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar. Þar eru gríðarleg tækifæri sem blasa við, fjölmörg vinstri græn störf sem mætti staðsetja í þeirri atvinnugrein en svo undarlega vill til að núverandi ríkisstjórn ætlar að setja hæsta virðisaukaskatt á þá atvinnugrein sem mun vafalaust hamla mjög vexti og viðgangi þeirrar greinar (Gripið fram í.) sem er heimsmet. Það er af sem áður var. Þegar við tölum fyrir öflugum sjávarútvegi, öflugum iðnaði og viljum standa vörð um þær atvinnugreinar — við þekkjum það að ákveðnir stjórnmálaflokkar hafa viljað fara hægar í sakirnar þegar kemur að því að nýta náttúruauðlindir landsins og þá heyrðist oft eitthvað „annað“ og þegar maður innti ákveðna stjórnmálaflokka eftir því hvað þetta annað væri þá var það jú ferðaþjónustan. En núna á þessu hausti á að ganga allharkalega fram gagnvart þessari undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar og vonandi munum við með þessari tillögugerð okkar ná að breyta þeim áætlunum sem ríkisstjórnin hefur gagnvart ferðaþjónustunni í landinu.

Í áttunda lagi fjöllum við heilmikið um landbúnað þar sem gríðarleg tækifæri eru fyrir hendi. Við eigum glæsilegan landbúnað þar sem heilmikil sóknarfæri bíða okkar og er þar talað í sjö liðum um sérstaklega — ég á einungis tvær mínútur eftir þannig að erfitt er að ná utan um allan þann málaflokk en þeir sem hlusta á þetta geta kynnt sér tillögurnar á heimasíðu þingsins og heimasíðu Framsóknarflokksins.

Í níunda lagi leggjum við áherslu á orkumál og orkuskipti og að ráðist verði í metnaðarfyllri aðgerðir til að framleiða orku hér á landi til atvinnusköpunar. Þar er reyndar ekki úr háum söðli að detta, það hefur ekki mikið gerst á undangengnum þremur árum þegar kemur að þeim málaflokki en vonandi mun rætast eitthvað úr því á næstu mánuðum með breyttum áherslum þegar kemur að þeim málaflokki.

X. kaflinn er um uppbyggingu í mannaflsfrekum iðnaði og tengist þeim IX. órjúfanlegum böndum.

Í XI. kaflanum fjöllum við um sjálfbært fjármálakerfi, um að mótuð verði stefna um fjármálakerfi sem byggist á fjölbreytni, neytendavernd og sjálfbærni. Þar höfum við framsóknarmenn lagt sérstaka áherslu á að horfa á fjölbreytni á fjármálamarkaði en ekki fábreytni. Það er ekki framtíðarsýn okkar að einungis þrír risar eigi að ríkja á bankamarkaði hér á landi. Við þurfum að hafa fjölbreyttari flóru og hef ég oft í mínu máli nefnt sparisjóðina í því samhengi.

Ég hafði einungis 15 mínútur til að mæla fyrir þessum tillögum og hef þurft að fara á hundavaði yfir þetta en málið er núna lagt fram í þinginu. Þetta er annað áherslumál Framsóknarflokksins á eftir þeim tillögum sem formaður Framsóknarflokksins hefur talað fyrir þegar kemur að skuldugum heimilum og fyrirtækjum landsins. Við erum bjartsýn á að þessar tillögur muni skila sér í því að hagur atvinnulífsins, ríkis og sveitarfélaga muni batna með markvissum aðgerðum í atvinnumálum ásamt því að koma til móts við skuldug heimili landsins. Tækifærin eru svo sannarlega fyrir hendi eins og við höfum talað fyrir á Alþingi í dag og vonandi verða þessar tillögur og hugmyndir sem við höfum lagt hér fram að veruleika einn daginn.