141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

sókn í atvinnumálum.

14. mál
[18:19]
Horfa

Flm. (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og stuðning við þær hugmyndir sem þingflokkur Framsóknarflokksins hefur lagt fram í atvinnumálum. Það hefði verið gaman að fá fleiri innlegg í þessa umræðu enda erum við að tala um mjög mikilvæg mál. Ég hjó eftir því að hv. þingmaður sagðist sakna þess að Framsóknarflokkurinn ályktaði hér ekki um einföldun skattkerfisins. Í þeirri skýrslu sem kom fram á flokksþingi framsóknarmanna og þessi þingsályktunartillaga byggist á er einmitt talað um að við eigum að fara þá leið að einfalda skattkerfið frekar en að flækja það líkt og gert hefur verið á umliðnum árum. Við hv. þingmaður erum því sammála í þeim efnum. Þegar við ræðum um samkeppnishæfni Íslands þarf náttúrlega að horfa til þess hvaða skattar og gjöld eru hér á landi og fleira. Ég held því að sú sýn sem starfshópurinn hafði og lagði til grundvallar skýrslu sinni sé á þá leið að létta frekar álögum af atvinnulífinu en að auka þær, vegna þess að við teljum að of langt hafi verið gengið í því.

Hv. þingmaður spurði einnar spurningar og saknaði þess að ekki væri tekið á aðskilnaði fjárfestingarbanka og viðskiptabanka. Sú umræða hefur verið hávær undangengnar vikur. Nú er rúmt ár síðan þessi skýrsla kom fram og þetta mál var kannski ekki eins „aktúelt“ þá eins og í dag, en ég er á því að við eigum að reyna að stuðla að aðskilnaði í þessari starfsemi. Við þurfum þá líka að mínu viti, þegar rætt er um að sparisjóðirnir eigi eingöngu að verða viðskiptabankar, að huga að stöðu þeirra í samkeppni við stóru bankana þrjá. Þetta höfum við rætt í efnahags- og viðskiptanefnd. Það má ekki setja svo miklar skorður við starfsemi litlu fjármálastofnananna að þær geti ekki staðið sig í samkeppni á hörðum markaði.

Ég ætla ekki að orðlengja þessa umræðu. Ég vonast til þess að málið fái forgang í atvinnuveganefnd þingsins. Hér er um gríðarlega umfangsmiklar tillögur að ræða og það er margt sem aðrir flokkar hafa nefnt sem rímar við tillögur okkar. Staðreyndin er sú að við erum einungis 320 þúsund manna þjóð en höfum allar þessar auðlindir. Við erum með fiskinn, olíuna, orkuna, náttúruna og mannauðinn, mjög vel menntað fólk. Það á ekki að vera gríðarlega flókið mál að reka samfélag þar sem búa 320 þúsund manns með allar þessar auðlindir. Við erum gríðarlega rík þjóð og nú er svo komið að við þurfum að einhenda okkur í það verkefni að nýta þau tækifæri sem blasa við okkur, á sem flestum stöðum. Þessar tillögur eru innlegg í þá umræðu og kveikja vonandi í framhaldinu hugmyndir að aðgerðum í þágu atvinnulífsins í landinu. Aðgerðir í þágu atvinnulífsins eru aðgerðir í þágu heimilanna í landinu vegna þess að við þurfum öll að hafa atvinnu og geta séð fyrir okkur.

Þessi málaflokkur er mjög umfangsmikill og eins og ég sagði í fyrri ræðu minni er þetta annað áherslumál framsóknarmanna sem við leggjum fram á þessum þingvetri. Hið fyrra var málefni skuldugra heimila og hvernig við getum mögulega nýtt skattkerfið til að skapa hvata svo að fólk geti lækkað höfuðstól af stökkbreyttum, verðtryggðum lánum sínum. Ég nefndi það þá að það er niðurdrepandi fyrir fólk að horfa upp á lán sín hækka mánuð eftir mánuð, alveg sama hversu mikið er greitt af þeim, þ.e. með reglulegum afborgunum. Þessu þarf að snúa við og við framsóknarmenn höfum lagt fram tillögur í þeim efnum og vonandi munu þingmenn annarra flokka líta á þær og við getum náð samstöðu á Alþingi um að koma þeim í framkvæmd hið fyrsta. Því þá eigum við bjartari tíma fyrir höndum og ég er sannfærður um að þeir eru fyrir höndum, en þá þurfum við að fara að taka okkur til og nýta þau tækifæri sem eru fyrir hendi í samfélaginu.