141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

formleg innleiðing fjármálareglu.

57. mál
[18:43]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ákaflega áhugaverða tillögu. Ég sé margt í henni sem gæti verið til mikilla bóta.

Fyrr í dag nefndi hv. þingmaður skýrslu sem hann og Gylfi Zoëga skrifuðu á sínum tíma um gjaldmiðilsmál. Þar var niðurstaðan eins og hjá Seðlabankanum nú, að líklegast væri að Íslendingar mundu styðjast við krónu eða taka upp evru. Með þessari tillögu má segja, að minnsta kosti af lýsingu hv. þingmanns að dæma, að verið sé að ráðast í aðgerðir sem nýtast muni hvor sem raunin verður. Ég held að það sé einmitt mjög mikilvægt að þingmenn fari að gera sér grein fyrir því að hvað sem menn ætla sér í gjaldmiðilsmálum þurfum við að gera sömu hlutina. Við þurfum í rauninni að uppfylla Maastricht-skilyrðin og gera ýmislegt fleira til að undirbúa framtíðina, hvort sem hún verður með krónu eða evru. Hér er fljótt á litið ágætisleiðarvísir hvað það varðar.

Spurningin er: Með hvaða hætti mætti tryggja að stjórnmálamenn fylgi þessum reglum, fari að reglunum en brjóti þær ekki? Ég spyr vegna þess að í Bandaríkjunum eru lög um að hámarksskuldir bandaríska ríkisins megi ekki fara yfir ákveðið hámark. Fljótt á litið hljómar það nokkuð skynsamlega, ríkisskuldir eru algjört eitur. Ef þær verða of miklar er verið að setja ríkið í hættu og það er eðlilegt að hafa hömlur á því. En raunin hefur hins vegar verið sú að menn breyta bara reglunum eftir þörfum. Ég held þeir hafi breytt hámarkinu fjórtán sinnum. Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að mönnum verði haldið við efnið, að koma megi í veg fyrir að þeir brjóti þessar reglur?