141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

formleg innleiðing fjármálareglu.

57. mál
[18:49]
Horfa

Flm. (Tryggvi Þór Herbertsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt, en þeir sem telja að þjóðaratkvæðagreiðslan, sem fram fer 20. október, snúist um að þjóðin geti hafnað eða samþykkt drög að nýrri stjórnarskrá, vaða í villu og svíma vegna þess að það væri brot á ákvæðum núverandi stjórnarskrár að þingið hefði ekkert um hana að segja. Einungis þingið getur breytt stjórnarskránni samkvæmt núverandi stjórnarskrá.

Það er bagalegt að eini prófessorinn í hagfræði sem hefur innsýn til að berjast fyrir slíkri reglu — hann barðist að vísu fyrir fjármálareglu en sú fjármálaregla gekk út á að banna lausagöngu búfjár — skyldi ekki berjast fyrir þessari mjög svo nauðsynlegu breytingu, þ.e. að reyna að hemja stjórnmálamennina í því að eyða um efni fram og setja þjóðina í þá stöðu sem hún er í í dag. Við borgum 90 milljarða í vexti á ári, það væri hægt að gera mikið fyrir þá peninga.

En ég held, burt séð frá því hvaða álit maður hefur á þeim drögum að stjórnarskrá sem nú liggja fyrir, að þeir vaði í mikilli villu og svíma sem halda að þessi skoðanakönnun bindi hendur Alþingis á einhvern hátt. Það er af og frá og væri hægur vandi að bæta við ákvæðum ef menn vildu gjörbylta stjórnarskránni.