141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

aðgerðir til að efla og auðvelda póstverslun.

44. mál
[18:51]
Horfa

Flm. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég mæli fyrir tillögu um aðgerðir til að efla og auðvelda póstverslun. Flutningsmenn eru auk mín hv. þingmenn Helgi Hjörvar, Eygló Harðardóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Birgitta Jónsdóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Siv Friðleifsdóttir, Árni Þór Sigurðsson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Álfheiður Ingadóttir og Lúðvík Geirsson. Koma þessir þingmenn úr öllum þingflokkum nema einum, Sjálfstæðisflokknum, en þar náðist ekki í þingmann sem væri tilbúinn að flytja málið. Ég á þó von á því að Sjálfstæðisflokkurinn styðji málið.

Í þingsályktunartillögunni er gert ráð fyrir að forsætisráðherra verði falið að setja á fót starfshóp sem athugi þróun og regluverk í póstverslun hér og erlendis og geri tillögur um lagabreytingar og aðrar ráðstafanir til að skapa póstverslun viðeigandi samkeppnisstöðu til hagsbóta fyrir neytendur og atvinnufyrirtæki. Í starfshópnum verði meðal annars starfsmenn úr fjármála- og efnahagsráðuneyti, innanríkisráðuneyti og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti — nú heitir þetta nýjum nöfnum — og fulltrúar sem samtök kaupmanna, flutningsfyrirtækja og neytenda skipi. Beðið er um að starfshópurinn ljúki skýrslu um störf sín og tillögum um úrbætur fyrir 1. september 2013.

Ég ætla ekki að tala mikið um þingsályktunartillöguna. Hún er flutt hér öðru sinni, hún var flutt á síðasta þingi og fór í umhverfis- og samgöngunefnd og fékk góð meðmæli í nefndaráliti frá meiri hluta nefndarinnar. Minni hlutinn skilaði ekki áliti. Málið komst ekki á dagskrá í þinglok til síðari umræðu sem mörgum þótti miður. Umsagnir bárust í fyrra frá Íslandspósti, Neytendasamtökunum og Samtökum verslunar og þjónustu og var í öllum umsögnunum mælt með samþykkt tillögunnar.

Í afar stuttu máli er þetta neytendamál, ósköp sakleysislegt verð ég að segja, en það vísar þó nokkuð til framtíðar og gæti það starf sem þarna er farið fram á orðið til þess að breyta og efla nýja siði í verslunarháttum, bæði milli landa og innan lands. Það yrði ekki síður dreifðum byggðum að gagni en fólkinu í kringum okkur á þessum reit.

Ég læt þessu lokið, forseti, og hvet áhugamenn til að skoða greinargerðina og hlýða á umræðu í fyrra og líta á nefndarálit umhverfis- og samgöngunefndar sem þá kom fram. Ég vonast til að málið fái góða og hraða afgreiðslu á þessu þingi (Forseti hringir.) og legg til að lokum að eftir þessa fyrri umr. gangi málið til hinnar háu umhverfis- og samgöngunefndar.