141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

ESB-aðild og framkvæmd ríkisfjármálastefnu.

[15:03]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég vil bera undir fjármálaráðherra þá skoðun sem oft er hreyft í tengslum við aðildarumsóknina að Evrópusambandinu, að það sé skynsamlegt, jafnvel nauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga að ganga í Evrópusambandið til að fá meiri aga og meira eftirlit með framkvæmd ríkisfjármálastefnunnar á Íslandi. Tilefni þess að nokkur vöxtur er í þessari umræðu á Íslandi er augljóslega sú hugmynd sem nú er unnið með í Evrópusambandinu, að auka sérstaklega samþættingu Evrópusamstarfsins á sviði ríkisfjármála þannig að Evrópusambandið verði eins konar ríkisfjármálasamband og þannig hyggjast Evrópusambandsríkin taka sameiginlega á ríkisfjármálum sínum.

Það sem ég vil bera undir ráðherrann er þetta: Telur fjármálaráðherra að við Íslendingar getum sett okkar eigin agareglur og búið til okkar eigið regluverk til að tryggja að menn fari ekki fram úr sér við fjárlagagerð og í loforðakapphlaupi í íslenskum stjórnmálum eða er fjármálaráðherrann þeirrar skoðunar að við þurfum að lúta erlendu agavaldi til að ná tökum á ríkisfjármálunum á Íslandi til lengri tíma? Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að við getum vel ráðið mun betur við vandann en raunin hefur verið en til að svo megi verða þurfum við á vettvangi stjórnmálanna, í þinginu, að taka höndum saman og festa í sessi tryggari agareglur í lögum sem menn verða að hafa til hliðsjónar, (Forseti hringir.) t.d. þegar sett verða saman fjárlög hvers árs.